146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:18]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði til að koma inn á nokkuð sem á vissan hátt tengist rafbílum og rafbílavæðingu og sjálfvirknivæðingu rafbíla en á allt annan hátt en maður myndi gera ráð fyrir. Það er augljóst að þegar tölvur stjórna í auknum mæli bílum í umferðinni á sama hátt og tölvur stjórna á sjúkrahúsum og vatnsaflsvirkjunum og fleiru og fleiru er öryggi þeirra tölvukerfa að verða æ mikilvægara þjóðaröryggismál fyrir okkur. Það kom fram í máli hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur áðan að ekki hefði náðst að fjármagna þær hugmyndir sem hafa verið uppi varðandi netöryggismál. Mér skilst að þetta hafi verið rætt aðeins í umhverfis- og samgöngunefnd en hef því miður ekki getað fylgst nægilega vel með nefndinni. Ég hef farið yfir þær umsagnir sem bárust nefndinni en finnst ekki nógu mikið farið í þetta þar.

Ég myndi gjarnan vilja ef hv. þingmaður gæti rakið aðeins fyrir mér hvernig meðferð netöryggis- og upplýsingamál hafa fengið í nefndinni, sérstaklega gagnvart fjármögnun og hvers vegna þau voru sett á bið. Við höfum séð á síðustu vikum stórfelldar og skæðar árásir á tölvukerfi víða um heim sem virðast jafnvel hafa gerst að einhverju leyti fyrir tilstilli bandamanna okkar þannig að ljóst er að við getum ekki treyst neinum í þessu samhengi. Var þetta rætt og að hve miklu leyti? Hvað stendur til að gera? Hvers vegna er þetta ekki fjármagnað? Getur hv. þingmaður sagt mér það?