146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:24]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka viðbrögðin. Jú, það er alveg rétt, við eigum að sinna þessu betur. Og þá kemur kannski að því að það hefur komið fram sú gagnrýni á Alþingi að okkur þingmenn vanti sérfræðiþjónustu. Þetta er dæmigert málefni þar sem sérfræðiþjónusta kæmi sér vel. Ég er ekki vel að mér í öryggismálum eða tölvumálum yfir höfuð. Ég reikna með að það eigi við um flesta nefndarmenn í umhverfis- og samgöngunefnd. Við þyrftum að bæta það. En varðandi orkuskiptaáætlun þá vantar þar stórlega fé eins og kom fram í minnihlutaáliti okkar í nefndinni þegar orkuskiptaáætlun var á dagskrá. Það litla sem þar er er m.a. áhersla á rafbíla enn einu sinni, 201 milljón, sem er sett til aðstoðar uppbyggingu á hleðslustöðvum á landinu sem er of lítið. En þarna vantar í raun og veru fjármunina í allt hitt (Forseti hringir.) eldsneytið; metan, metanól, vetni og lífdísil. Þar liggja stóru hagsmunir okkar, ekki síður en í rafmagninu.