146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:53]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Þetta hljómar nú eins og verið sé að lýsa ákveðnu vantrausti á stjórn Landspítalans. Vegna þess að ég tel að Landspítalinn geti vel verið í því ferli að sinna innra starfi sem og því að sinna ytra starfi, eins og þingmaðurinn leggur upp með að sé ekki hægt. Að hugsa um að byggja upp húsnæði um leið og við hugsum um innra starf spítalans. Ég er bara ekki sammála því. Mér finnst þetta vera svolítið sérstakt. Ég spyr þingmanninn hvort hún hafi rætt þetta sérstaklega áður en hugmyndin kom fram opinberlega við forstjóra eða yfirstjórn spítalans. Því að þetta kom mjög flatt upp á marga. Ég spyr í leiðinni: Telur hún að þetta eigi við um fleiri stofnanir ríkisins? Að skynsamlegt sé að setja stjórn yfir fleiri stofnanir ríkisins eins og hér er lagt til?