146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:57]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Það er einfalt andsvar við því: Það er rangt. Það eru ekki bara hreinlega fastar verðlagsbreytingar sem eiga sér stað því það koma auðvitað kjarasamningar inn á milli. Þetta er ekki þannig að þetta sé bara verðlagsbætt. Ef svo væri, þá væri þetta ekkert vandamál. Jú, einhver hluti af þessu er verðlagsbætur og mun kannski koma upp á móti en það er auðvitað gert ráð fyrir því líka að einhverjar kjarabætur eiga sér stað. Það er því hreinlega rangt að ganga út frá því að þessi 9% einhverra hluta vegna hverfi. Ef svo væri þyrfti ekki að taka tillit til þess í fjármálaáætluninni á bls. 54 vegna þess að á svipuðum slóðum í sömu áætlun, á bls. 52 eða 53 held ég, kemur fram að gengið er út frá að öll fjármálaáætlunin sé einmitt á föstu verðlagi. Það þyrfti því ekki að taka þetta fram, það væri óþarfi. Þannig að ég skil þetta ekki.