146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[23:01]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki sannfærð. Ég hef enn þá verulegar áhyggjur af rekstri Landspítalans. Og ég hef líka gríðarlegar áhyggjur af heilsugæslunni, bæði hér á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. En í efnislegri vinnslu málsins, í kringum ný lög um sjúkratryggingar og fleira innan velferðarnefndar síðasta sumar, komu upp áhyggjur af því hvort mönnun heilsugæslunnar væri undir þetta veigamikla hlutverk búið, þ.e. að vera fyrsti viðkomustaður. Við vinnslu málsins var ákveðið að setja aukafjármagn, 300–400 milljónir, inn í heilsugæsluna til að styrkja hana í því hlutverki. Það var gert. Hins vegar þarf að bæta verulega fjármögnun heilsugæslunnar svo þetta gangi upp. Mig langar að spyrja hv. þingmann og kem enn og aftur að gagnrýni okkar um að þarna er stöðugt blandað saman rekstrarkostnaði og fjárfestingum. Það á líka við um heilsugæsluna eins og flest annað í fjármálaáætlun. En mig langar að heyra í hv. þingmanni hvort hún deili þessum áhyggjum mínum af heilsugæslunni og þeirri framtíðarsýn sem við höfum um heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað og hvort þetta gangi hreinlega upp miðað við fjármálaáætlun.