146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[23:04]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Í fyrri ræðu minni náði ég ekki að fara yfir nefndarálit 3. minni hluta, sem er sú sem hér stendur og er fulltrúi Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd, þannig að nú held ég áfram. Ég var í fyrri ræðu minni búin að fara yfir hvað mér fannst að þessari fjármálaáætlun. Hún er auðvitað fjármálaáætlun hægri stjórnar. Við jafnaðarmenn finnum lítinn samhljóm með henni. En þegar búið verður að samþykkja fjármálaáætlunina erum við búin að festa ramma fyrir 34 málefnasvið. Þess vegna fannst okkur í Samfylkingunni nauðsynlegt að gera breytingartillögur á þeim sviðum sem okkur fannst verða verst úti. Það eru líka þau svið sem mest var talað um hér fyrir kosningar og almenningur hefur kallað eftir breytingum á.

Við gerum breytingartillögur í heilbrigðismálum. Við leggjum til að ramminn verði víkkaður út fyrir sjúkrahúsþjónustu í landinu, fyrir heilsugæsluna í landinu og að greiðsluþátttaka einstaklinga í heilbrigðiskerfinu verði tekin niður enn frekar og að rekstur hjúkrunarheimila verði styrktur. Við getum ekki séð í áætluninni hvernig það á að ganga upp einfaldlega bara að reka heimilin, hvort sem það eru þau nýju eða þau sem eldri eru, miðað við fjárveitingar lagðar til hjúkrunarheimila. Það vantar líka upp á að byggja upp heimili og mæta þörfinni. Fjöldi hjúkrunarrýma sem bætt er við í þessari fjármálaáætlun dugar aðeins fyrir helmingi af reiknaðri þörf til ársins 2020. Það er því augljóst að þarna erum við í miklum vanda.

Stærsti hlutinn af breytingartillögum okkar snýr að heilbrigðismálunum, en við gerum líka breytingar í menntamálum. Þar leggjum við til að framhaldsskólinn fái aukinn stuðning til þess að komast í gegnum erfiðleikatímabil sem verður á næsta ári og því þarnæsta. Það er vegna þess að stytting námstíma er að ganga í gegn. Í sumum skólum er þar tvöfalt kerfi núna og á næstu tveimur árum. Skólarnir eru líka að glíma við náttúrulega fækkun nemenda, en strax árið 2021 fer nýnemum að fjölga aftur. Þeim mun fjölga jafnt og þétt upp frá því, þannig að þetta er tímabundinn vandi. Síðan viljum við, og krefjumst þess reyndar, að sparnaðurinn sem hlýst af styttingu námstíma til stúdentsprófs haldist inni í kerfinu eins og lofað var og að hann verði nýttur til þess að styrkja stoðþjónustu við nemendur og bæta námsframboð.

Háskólarnir eru sveltir, leyfi ég mér að segja, í þessari áætlun. Stjórnarliðar hafa talað fjálglega um mikilvægi menntunar og að við séum að mæta nýrri tæknibyltingu og þurfum að vera á tánum, en síðan er ekki gert ráð fyrir því að menntunin spili þar mikið hlutverk, eins og hver maður sér að hlýtur að verða. Við gerum tillögu um að gert verði átak í rekstri háskólanna þannig að 1 milljarður verði settur til viðbótar á hverju ári þessi fimm ár. En þó að við gerum það, sem mörgum þætti kannski ríflegt, erum við samt ekki búin að ná meðaltali OECD-ríkjanna til reksturs háskóla. Þannig að það þarf að gera átak þarna. Við erum að segja að það þurfi að lágmarki að hafa það svona.

Við gerum breytingartillögur í málefnum öryrkja og fatlaðs fólks, sem lúta aðallega að því að kjarabæturnar sem gert er ráð fyrir að þau fái árið 2019 komi strax árið 2018 og að einföldun kerfisins komi fyrr inn þannig að þau njóti fyrr kjarabóta.

Við gerum líka tillögur í samgöngum, fjarskiptum og löggæslu. Við gerum ráð fyrir að samgönguáætlun fyrir árið 2018 verði fullfjármögnuð og reiknum með svipaðri upphæð út áætlunartímann. Við gerum ráð fyrir þó nokkrum fjármunum til þess að flýta áætlun í fjarskiptamálum sem þó er komin, en það þarf að spýta í lófana þar. Löggæslan býr augljóslega við fjársvelti og mikið álag og þar þarf að bæta í.

Að lokum gerum við tillögu um að þróunarsamvinnan verði aukin. Við erum rík þjóð, við erum ein af ríkustu þjóðum í heimi en við erum svo langt frá því að ná markmiðum Sameinuðu þjóðanna um að 0,7% af vergum þjóðartekjum fari til þróunarsamvinnu. Gert er ráð fyrir að við förum í 0,26%. Ég skammast mín hreinlega fyrir þá upphæð. Ekki er gert ráð fyrir að við hækkum það upp í markmið Sameinuðu þjóðanna.

Við leggjum til að upphæðin verði 0,29% af vergum þjóðartekjum árið 2018 og hækki upp í 0,33% á árinu 2022. Við gerum okkur grein fyrir því að það þarf að gera mun betur.

Þessar tillögur okkar í Samfylkingunni eru það sem við segjum að sé lágmark til þess að bæta þessa fjármálaáætlun, sem væri með allt öðrum hætti ef við hefðum fengið að semja hana frá grunni. En við gerum okkur líka grein fyrir því að staðan er þannig í hagkerfinu og efnahagslífinu að það þýðir ekki bara að auka útgjöldin, við verðum að segja hvar við ætlum að taka tekjurnar. Og við gerum það.

Við leggjum til í fyrsta lagi að almenna virðisaukaskattsþrepið verði ekki lækkað árið 2019 niður í 22,5%, eins og áætlunin gerir ráð fyrir. Það gefur á árunum 2019–2022 13,5 milljarð á ári hverju.

Við gerum ráð fyrir að hér verði lagður á stóreignaskattur. Þar sem hann er reiknaður eftir á myndi hann ekki koma inn fyrr en árið 2019, en við gerum ráð fyrir 7 milljörðum í gegnum það. Til þess að gefa hv. þingmönnum viðmið um umfang þessa skatts sem við leggjum til, þá gaf auðlegðarskatturinn á sínum tíma, síðasta árið sem hann var við lýði, rúma 10 milljarða í ríkiskassann. Við gerum ráð fyrir að þarna verði íbúðarhúsnæði dregið frá í ríkari mæli en gert var þegar við vorum með auðlegðarskattinn á sínum tíma.

Við viljum hertara skatteftirlit. Ríkisskattstjóri segir að rúmum 80 milljörðum sé skotið undan skatti. Með hertu eftirliti ættum við að geta náð hluta af því. Við gerum ráð fyrir að við náum 5–6 milljörðum á ári ef við aukum eftirlitið.

Við leggjum til að veiðigjöldin hækki og orkufyrirtækin fari að greiða auðlindarentu. Þarna leggjum við til hógværa en sanngjarna hækkun út tímabilið. Við vitum að arðgreiðslur hafa verið vanáætlaðar lengi. Við gerum ráð fyrir því og færum þá áætlun meira til raunveruleikans.

Að lokum leggjum við að hér verði settur stighækkandi tekjuskattur á lögaðila, sem myndi gefa u.þ.b. 4 milljarða á ári, og stighækkandi fjármagnstekjuskattur myndi gefa um 2 milljarða á ári.

Þetta eru tekjurnar sem við leggjum til. Þær gefa mun meiri tekjur á ári hverju en útgjaldatillögur okkar gera ráð fyrir, enda þurfum við að sýna meiri afgang en fjármálaáætlunin gerir ráð fyrir. Við þurfum líka að skoða fleiri málasvið sem hugsanlega þyrfti að bæta þannig að við gefum ákveðið svigrúm fyrir það.

Þetta teljum við nauðsynlegt að gera og ég er mjög hissa á því að meiri hluti fjárlaganefndar, sem dregur fram ýmsa galla og gagnrýnir áætlunina, talar m.a. um að það sé sanngjarnt að sparnaðurinn sem hljótist af styttingu námstíma til framhaldsskóla renni til framhaldsskólanna, en hann gerir ekki tillögu um breytingu þar. Hvernig stendur á því? Sama er að segja um háskólana. Meiri hlutinn leggur til að einskiptisupphæðir, sem gert var ráð fyrir í fjárlögum fyrir árið 2017, haldist inni á árinu 2018, en hann gerir ekki tillögur um það í tölum. Hvers vegna ekki? Það læðist að mér sá grunur að verið sé að afgreiða fjármálaáætlunina af léttúð, að það megi taka hana upp og breyta römmunum og færa á milli og fara bara með áætlunina eins og ríkisstjórninni sýnist. En það er ekki svo. Það er ekki svo, virðulegur forseti, vegna þess að lög um opinber fjármál gera ráð fyrir því að þegar þingsályktunartillagan er samþykkt sé búið að samþykkja umgjörðina um málasviðin sem vinna á eftir fyrir fjárlög ársins 2018. En auðvitað er áætlunin síðan tekin upp á hverju ári þannig að það er ekki eins stíft fyrir næstu árin þar á eftir.

Það hefur hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra líka sagt hér úr þessum ræðustól, að ekki verði gerðar breytingar á tölunum sem settar eru á málasviðin nema eitthvað komi upp á sem verður að bregðast við, eitthvað óvænt, eitthvað ófyrirséð, sem við sjáum ekki núna í kortunum. En meiri hluti fjárlaganefndar virðist ekki líta þannig á heldur segir hann í texta að bæta þurfi í hér og bæta í þar, en sýnir það ekki í tölum.

Meiri hluti fjárlaganefndar leggur t.d. til að því verði frestað að þeir 8,5 milljarðar sem áttu að koma inn í gegnum virðisaukaskatt um mitt ár, eða 1. júlí 2018. Þar með vantar inn í tekjuáætlunina 8,5 milljarða. Ekkert sagt um hvernig mæta eigi því og engu er breytt tekjumegin. Það finnst mér vera fullkomlega óábyrgt.

Hv. formaður fjárlaganefndar, sem talar hér oft af mikilli skynsemi um hversu mikilvægt sé að sýna ábyrgð, vanda áætlanir og sýna festu og varfærni, ákveður síðan þegar hann stýrir meiri hlutanum í nefndarálitinu að fara alls ekki þá leið heldur að umgangast fjármálaáætlunina til næstu fimm ára af léttúð og skilja okkur eftir í óvissu. Gildið í lögum um opinber fjármál er t.d. festa en hennar gætir ekki þegar í umfjöllun meiri hluta fjárlaganefndar.

Síðan er ýjað að ýmsu í meirihlutaáliti fjárlaganefndar sem ég vil gagnrýna harðlega, eins og t.d. að selja flugstöðina á Keflavíkurflugvelli. Þar er talað um að taka umræðuna, skoða það og opna á umræðuna um að einkavæða einu gáttina inn og út úr landinu. Mér finnst það ekki bara fráleitt út frá hagstjórnarlegu tilliti á næstu fimm árum að ætla að fara út í slíkar æfingar, heldur varðar það hreinlega öryggi landsins að opinberir aðilar séu með slíkan rekstur í sínum höndum. Fleira má um það segja. Fyrst meiri hluti fjárlaganefndar opnar umræðuna um það hvort nú ætti kannski að skoða kosti og galla þess að einkavæða flugstöðina á Keflavíkurflugvelli þá gerir hann ekki tillögu um að við skoðum áhrif einkavæðingar í heilbrigðiskerfinu og hvort ekki þurfi að snúa af þeirri braut sem farin er þar eða gagnrýna áform um einkavæðingu í menntakerfinu.

Frú forseti. Tíminn er búinn. (Forseti hringir.) Það má vera að ég komi síðar í ræðu, en það verður sennilega ekki í kvöld.