146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[23:34]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur gott yfirlit yfir hennar sýn og flokks hennar á fjármálaáætlunina.

Ég er í þeim sporum að hafa ekki tekið þátt í vinnu nefndanna en finnst á hinn bóginn mjög fróðlegt að koma hingað inn og sjá hverju nefndirnar hafa skilað og hverju þessi fyrsta umferð í nýjum vinnubrögðum hefur skilað og hvernig hún hefur gengið. Mér sýnist að nefndirnar hafi lagt töluverða áherslu á að fara yfir innra samræmi í markmiðum og tölunum sem þó liggja fyrir, sem eru þó ekki allar vel sýnilegar. Ég hef velt fyrir mér samræminu við þær áætlanir sem liggja fyrir samþykktar af þinginu í einstökum málaflokkum, eins og samgönguáætlun, en þar blasir náttúrlega við mikið ósamræmi sem mér heyrist reyndar flestir vera mjög ósáttir við og heyrðist m.a. á stjórnarþingmönnum hér fyrr á þessu ári að þeir vildu allir bæta í, en þó sér þess ekki stað í áætluninni.

Þess vegna vil ég spyrja um skoðun þingmannsins, sem ég veit að hefur velt þessum málum mikið fyrir sér, hvernig nefndirnar geta í rauninni farið betur í þetta samræmi, eins og t.d. við samgönguáætlunina, við framkvæmdaáætlun um málefni innflytjenda, við áætlun í jafnréttismálum og fleiri áætlanir. Er það ekki eitthvað sem þinginu bæri að gera í þessari vinnu og hvernig væri það í rauninni framkvæmanlegt?

Hins vegar langar mig að koma að menntamálunum. Ég deili með hv. þingmanni áhyggjum af stöðu framhaldsskólanna. Það voru mikil vonbrigði að sjá að sparnaðurinn sem verður við styttingu stúdentsprófs renni ekki til þess að styrkja framhaldsskólana. (Forseti hringir.) Ég fer betur í þær spurningar í næstu umferð, en gott ef þingmaðurinn finnur sér tíma til að byrja.