146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[23:39]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég hef þá sýn að það sé afskaplega mikilvægt að þingið fylgi eftir þeim stefnum sem hafa verið samþykktar og eins að það komi fram í fjármálaáætlun rök fyrir því ef verið er að víkja frá þeim og tel náttúrlega að sú sátt sem náðist í samgönguáætlun hafi verið í rauninni sátt um lágmarksframkvæmdir á því sviði.

Aftur að framhaldsskólunum. Það sem ég hef verið að velta fyrir mér og hef verið að reyna að skoða og sýnist að hluta til vera vandinn að nemendatölurnar eru bara ekki réttar sem birtast í áætluninni. Ég get t.d. ekki fundið samræmi við það að fletta á vef Hagstofunnar og við tölur fyrir einstaka áætlaðar tölur um nemendafjölda fyrir einstaka landshluta. (Forseti hringir.) Það kemur auðvitað til með að valda vanda því að auk þeirra nemenda sem eru í hverjum árgangi eru náttúrlega alltaf einhverjir eldri nemendur á ferðinni í kerfinu.