146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[23:40]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt í þeirri stöðu sem framhaldsskólinn er núna að tekið sé tillit til þeirra og að við hér sjáum til þess að aðgengi að skólum, framhaldsskólum úti um landið, verði ekki skert á meðan þeir standa í vandanum. Við þurfum að rýna tölurnar, skoða hvernig umsóknirnar eru, hvernig þær raðast niður á skóla og niður á landshluta, sem verður lokað á núna 1. júní. Við verðum að sjá til þess á meðan þetta erfiðleikatímabil gengur yfir að ungmennin hafi aðgang að framhaldsskóla sem næst í sinni heimabyggð. Við verðum að styrkja skólana í samstarfi í fjarnámi og dreifnámi þar sem erfitt er að halda úti fámennum hópum. (Forseti hringir.) Við megum ekki gera þessum árgöngum það sem núna eru að fara inn í framhaldsskólana að námsframboðið verði fátæklegra (Forseti hringir.) af því að við erum að spara svo mikið í menntakerfinu okkar. Það megum við ekki láta gerast.