146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég vil gera hér að umtalsefni það sem ég kýs að kalla ógeðfellda aðför stjórnarliða að Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi. Í ljós kemur að stjórnarliðar hafa bak við tjöldin verið að kokka með sér hugmyndir um að setja einhvers konar pólitíska stjórn eða yfirfrakka á stjórnendur Landspítalans. Það er greinilegt að nýjum valdhöfum líkar ekki að Landspítalinn – háskólasjúkrahús og stjórnendur hans hafa gert það sem þeim ber; þeir hafa upplýst þing og þjóð um hina raunverulegu stöðu Landspítalans. Það fellur ekki vel í kramið hjá nýjum valdhöfum sem þó hafa flestum meira talað um fagleg vinnubrögð, gagnsæi og annað í þeim dúr. Það á að setja þöggunarnefnd yfir stjórnendur Landspítalans og þeir eiga að hætta að koma og kynna sín mál hér fyrir fjárveitingavaldinu o.s.frv. Það er það sem fram hefur komið í þessum ræðuhöldum.

Haft er eftir hæstv. fjármálaráðherra að öll alvörufyrirtæki hafi stjórn, öll alvörufyrirtæki. Það er undarlegt viðhorf. Er Landspítalinn bara eitthvert hf. úti í bæ, bara fyrirtæki? Nei, Landspítalinn er móðurstöð í íslenska heilbrigðiskerfinu og Landspítalinn er háskólasjúkrahús, hann er akademísk stofnun. Á líka að setja pólitíska stjórn yfir akademískt frelsi Landspítalans – háskólasjúkrahúss? Hvert eru menn hér að fara?

Það er alveg með endemum að félagsmálaráðherra og formaður velferðarnefndar skuli vera í fararbroddi fyrir þessari atlögu að Landspítalanum, standa í þrætum við stjórnendur Landspítalans, reyna að vefengja upplýsingar sem þeir hafa sett fram og fara svo auðvitað mjög halloka í því, því að Landspítalinn hefur rekið hvert orð ofan í hæstv. félagsmálaráðherra.

Eitt væri það ef Alþingi kysi að setja á nýjan leik samstarfsnefnd eða svipaða nefnd og var fyrir stjórnarnefnd Ríkisspítala á sínum tíma sem var blönduð nefnd fulltrúa allra flokka og faglegra stjórnenda Landspítalans með aðild starfsmanna og læknaráðs og yfirstjórnar spítalans en hér er það ekki á dagskrá. Nei, hér á að setja eiginlega stjórn (Forseti hringir.) sem tekur völdin af hinum ráðnu, faglegu stjórnendum og þaggar niður í þeim. Það verður ekki.