146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegur forseti. Í Reykjanesbæ býr listamaðurinn Hallmundur Kristinsson. Hann er ekki bara prýðilegur myndlistarmaður og liðtækur í tónlist heldur líka vel ritfær. Hann skrifar ágætan skáldskap sem ég ætla að fara með hér og hljómar svo, með leyfi forseta:

„Svo háttar til að þrír hv. þingmenn hafa beðið um að veita andsvar við ræðu hv. þingmanns og verður því ræðutími styttur niður í eina mínútu. Fyrstur tekur til máls hv. 10. þm. Norðausturkjördæmis vestra, Guðmundur Jón Guðmundsson.

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Stefaníu Stefánsdóttur fyrir frábæra ræðu. Hún minntist á það í ræðu sinni að ríkisstjórnin væri komin út á hálan ís í stjórn sinni á landinu. Nú vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér um það að ríkisstjórnin sé eiginlega búin að skíta upp á bak.

Þá svarar andsvari hv. 13. þm. Reykjavíkurkjördæmis austur, Stefanía Stefánsdóttir.

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Jóni Guðmundssyni fyrir fyrirspurnina. Nú vil ég reyna að svara spurningu hans eftir bestu getu á þeim stutta tíma sem mér er markaður í þessu svari mínu. Já, ég er sammála þingmanninum um það að segja megi að ríkisstjórnin sé búin að skíta upp á bak og segja megi raunar að hún sé með allt niður um sig. Ég sé nú að tími minn er að verða búinn og verður því þetta svar að nægja.“

Ég sé að þingmönnum hér í sal er skemmt og ekki að ástæðulausu, þetta er hvort tveggja í senn skemmtileg lesning en líka sorgleg. Svona er komið fyrir Alþingi Íslendinga. Hér skortir nefnilega á að hér eigi sér stað eðlilegt samtal milli stjórnarliða og stjórnarandstöðu og ég held að við verðum að bæta úr þessu ásamt mörgu öðru.