146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Nú í lok þingsins er ég að reyna að meta hvernig nýju þingi hefur gengið. Þá horfi ég helst til þeirra nýju vinnubragða sem lofað var, en sama hvað ég reyni get ég ekki séð hvað er öðruvísi en áður, fyrir utan eitt; þátttaka hæstv. fjármálaráðherra í umræðum um mál hans á þingi. Meira svoleiðis, takk.

Annað er sagan endalausa. Kjörtímabilið byrjar á launahækkunum og lygi. Lífeyrisréttindi eru tekin af fólki af því að það hentar bókhaldslega, sjómönnum er hótað lagasetningu á verkfall, einmitt þegar verkfallið fer að geta skipt máli fyrir peningaöflin, forsætisráðherra brýtur jafnréttislög og afsakar sig með því að falsa söguna. (Gripið fram í.) Milljarðamistök þurfti að laga út af mistökum vegna flýtimeðferðar mála þingsins undir lok síðasta kjörtímabils.

Nú erum við aftur í þinglokavinnu og aftur er verið að reyna að troða ókláruðum eða gölluðum frumvörpum í gegnum þingið. Frumvarp um jafnlaunavottun er ekki tilbúið, ályktun um fjármálaáætlun er ekki tilbúin og aukinni ríkisábyrgð upp á 4,7 milljarða á að troða í gegnum þingið þó að vitað sé að afskrifa þurfi hluta lánsins.

Ríkisstjórnin ætlar að taka aukalán, ríkisstjórnin sem ætlar að lækka skuldir ætlar að taka aukalán fyrir Vaðlaheiðargöng og svo mun þurfa að afskrifa hluta lánsins. Kostnaðurinn fellur á ríkissjóð og þar með alla landsmenn. Vel gert.

Heiðarlegri leið til að klára þessi göng væri annaðhvort að selja þau bara eins og átti að gera eða taka göngin yfir, eins og er óhjákvæmilegt, og setja þau þá bara á fjárlög. En það má ekki, það tekur af fjármagni kjördæmisins í önnur verkefni. Afleiðingin er að það verða engin ný kjördæmapotsverkefni, það myndi koma í veg fyrir pólitík eins og venjulega. Heiðarlegri vinnubrögð eru að gera faglegar áætlanir í samvinnu við hlutaðeigandi og standa við þær.

Flokkar nýrra vinnubragða, áframhaldandi afgreiðsla ókláraðra frumvarpa og áframhaldandi kjördæmapot — var það hugmynd ykkar um ný vinnubrögð?