146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

viðvera ráðherra við umræður um fjármálaáætlun.

[11:07]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég vil taka undir ábendingar hv. þingmanns. Ég vil spyrja forseta hvort við getum í raun lokið umræðu um ríkisfjármálaáætlun í ljósi þess að heilbrigðismálin, sem stóð jú til að hafa í brennidepli þessarar ríkisstjórnar og í forgangi, eru í brennidepli af öðrum ástæðum en þeim að þau séu í forgangi. Við blasa mjög alvarlegar þrengingar í málaflokknum, sveltistefna í fjármálaáætlun og í raun er verið að þrengja að rekstri heilbrigðisþjónustunnar, þvert á fyrirheit fyrir kosningar og orðin tóm í stjórnarsáttmála. Nú hefur forysta Landspítala – háskólasjúkrahúss greinilega sagt of mikið að mati ríkisstjórnarflokkanna og upp hefur komið hugmynd um að setja þöggunarstjórn yfir spítalann.

Virðulegur forseti. Það er óásættanlegt nú þegar málaflokkurinn er í slíku uppnámi í umræðunni að heilbrigðisráðherra sé fjarverandi við umræðuna hér í heila viku. Ég spyr forseta: Er ekki rétt mat hjá mér að við getum tæpast lokið umræðu um ríkisfjármálaáætlun á meðan heilbrigðisráðherra er hér ekki til að taka þátt í umræðunni?