146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

viðvera ráðherra við umræður um fjármálaáætlun.

[11:08]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég get ekki annað en tekið undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa talað því að hér er jú um stærsta mál ríkisstjórnarinnar að ræða sem á að marka stefnu hennar til næstu fimm ára. Vissulega tókst okkur að særa nokkra hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans til að taka þátt í umræðunni eftir að við bentum á það í ræðustól að þátttaka þeirra væri nánast engin. Þá komu nokkrir hv. þingmenn og ég kann þeim bestu þakkir fyrir að koma upp og reyna að eiga hér samtal, því að Alþingi á að snúast um samtal. Mér finnst það satt að segja svolítið kúnstugt, þótt hæstv. fjármálaráðherra hafi setið hér og fengið miklar þakkir fyrir að sitja undir umræðunni, að hann tekur samt ekki mikinn þátt í umræðunni, ég vona að hann hlusti þeim mun betur. Hann sér ekki ástæðu til að fara í andsvör við formenn stjórnarandstöðuflokkanna þegar þeir koma upp og gagnrýna áætlun hans. Raunar sá enginn hv. þingmaður stjórnarmeirihlutans ástæðu til þess.

Ég velti því fyrir mér við hvað hv. þingmenn og hæstv. ráðherra stjórnarmeirihlutans eru hræddir, því að þeir virðast skirrast við að taka þátt í umræðum um sitt stærsta mál. (Forseti hringir.) Kannski vegna þess að það er svo bullandi ósætti innan húss um sjálfa áætlunina að það afhjúpast í hvert (Forseti hringir.) sinn sem hér stígur í pontu þingmaður frá meiri hlutanum.