146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

viðvera ráðherra við umræður um fjármálaáætlun.

[11:10]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Það var eiginlega sorglegt að fylgjast með hæstv. fjármálaráðherra sitja aleinn í þingsal, ekki bara einhverjar mínútur heldur jafnvel klukkustundum saman, þar sem hann fékk engan stuðning frá samherjum sínum í ríkisstjórninni. Forsætisráðherra er náttúrlega löngu týndur, það veit enginn hvar hann er, hann sést varla hérna.

Það sama gildir um heilbrigðisráðherra. Hæstv. heilbrigðisráðherra er eiginlega búinn að gefast upp á verkefninu, ætlar að fá einhverja stjórn svo að hann geti kannski komið úr felum.

Þetta er ekki hægt. Hér erum við að tala um fjármálaáætlunina sem snertir á öllum krikum samfélagsins. Við erum öll ágætlega undirbúin undir það að taka þátt í þeirri umræðu og ég ætla að fá að þakka formanni fjárlaganefndar og fjárlaganefnd fyrir að taka þó ákvörðun um það að vísa áætluninni inn í fagnefndirnar. Við erum búin að vera að vinna (Forseti hringir.) og við erum búin að fjalla um þetta mál og hér er einmitt vettvangurinn til þess að taka (Forseti hringir.) umræðuna um þetta mikilvæga plagg. Eða eru stjórnarliðar einfaldlega að segja að fjármálaáætlunin skipti engu máli?