146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

viðvera ráðherra við umræður um fjármálaáætlun.

[11:13]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Umræða um fjármálaáætlun hefur nú staðið í tvo daga sem er ekkert skrýtið. Þetta er þriðji dagurinn, þetta er mikilvægasta stefnumótunarumræðan um fjárlögin. Það er verið að færa þungann af fjárlagaumræðunni frá hausti yfir á þennan tíma og tilgangurinn er að ræða stefnumótun, frú forseti, stefnumörkun löggjafarvaldsins. Tillaga kemur frá framkvæmdarvaldinu og það er síðan löggjafinn sem býr til rammann.

Ef það væri alveg skýrt að sú stefnumörkun sem framkvæmdarvaldið lagði hér fram væri ekki gagnrýnd nema af okkur í minni hlutanum að einhverju leyti, ef tilfellið væri ekki það að stjórnarmeirihlutinn, þingmenn í salnum, gagnrýndi harðlega eins og fram kemur í meirihlutaáliti fjárlaganefndar og öðrum nefndum það plagg sem hér var lagt til grundvallar, þyrftum við kannski ekki að taka samtal við ráðherra. (Forseti hringir.) En þegar það er grundvallarágreiningur milli óbreyttra þingmanna og framkvæmdarvaldsins, ráðherranna, hlýtur að vera æskilegt að þeir tækju þátt í þessari umræðu því það er of seint að gera það í haust.