146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

viðvera ráðherra við umræður um fjármálaáætlun.

[11:15]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla ekki að hrósa þeim ráðherrum sem sitja hér í salnum því að þeir hafa samkvæmt lögum sömu viðveruskyldu og við hinir þingmennirnir. Frekar vil ég benda á hversu fáliðað er oftast í salnum í þessari umræðu um stærsta mál ríkisstjórnarinnar, sem ætti að vera uppskeruhátíð en er svo fjarri því að vera það, því að stjórnarliðar sýna engan skilning í öllum sínum umsögnum á því sem er sett fram í þeirri áætlun. Þeim finnst hún jafn léleg og okkur. Það er kannski þess vegna sem ráðherrarnir hafa ekki dug í sér til að standa hérna. Það er kannski þess vegna sem heilbrigðisráðherra er flúinn til Sviss, á hlutlaust svæði, til að þurfa ekki að útskýra fyrir félögum sínum af hverju hann ætli að skera niður í heilbrigðismálum. Hann gæti í leiðinni beðið fólkið hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni afsökunar á því hvernig látið er með ráðleggingar þeirra í áfengisfrumvarpinu, en hann nýtir kannski kvöldin í það. Og auðvitað mætir menntamálaráðherra ekki hingað til að útskýra af hverju hann fjórfaldar niðurskurð á framhaldsskólastigið. (Forseti hringir.) Hefur hann einhvern tíma útskýrt fyrir félögum sínum hvers vegna hann varð undir í slagnum í ríkisstjórninni um þá takmörkuðu fjármuni sem hæstv. fjármálaráðherra skammtar? Af hverju tapaði Kristján Þór Júlíusson í hungurleikum ríkisstjórnarinnar?