146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

viðvera ráðherra við umræður um fjármálaáætlun.

[11:16]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Mér líður stundum eins og ég sé Tumi engispretta þessarar ríkisstjórnar. Ég sit á öxl hennar og minni hana á að fara eftir réttum og góðum siðum, ekki valta yfir Alþingi og sýna Alþingi smá virðingu. Það er allt í lagi. Sagan af Gosa er ágæt og ég skal taka þetta hlutverk að mér. En þetta er náttúrlega engan veginn hægt. Hvað finnst hæstv. heilbrigðisráðherra um nefndarálit hv. fjárlaganefndar? Ég hef ekki hugmynd um það. Ég hef ekki heyrt hann segja eitt einasta orð um það og alls ekki hér. Hvað finnst öðrum ráðherrum um það álit og þau orð sem koma frá hv. stjórnarliðum? Á að bregðast við þeim orðum? Við höfum ekki hugmynd um það. Ríkisstjórnin ætlar að keyra þetta mál í gegn án þess að hlusta á okkur í stjórnarandstöðunni, það er bara eins og venjan er, þeim finnst ekki mikið til málflutnings okkar koma og nenna yfirleitt ekki einu sinni að hlusta á hann, en þegar þeir hlusta ekki einu sinni á eigin stjórnarliða fer maður að velta fyrir sér til hvers sé verið að sitja í stjórnarmeirihluta.