146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

viðvera ráðherra við umræður um fjármálaáætlun.

[11:20]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Það var ágæt tilhögun við fyrri umr. um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar að þar var hægt að spyrja ráðherra út í áætlunina. Þá höfðum við haft knappan tíma til að kynna okkur málin en það var gott að geta átt þetta samtal við ráðherrana og mér finnst að Alþingi, og ég vil beina því til hæstv. forseta, ætti að skoða vinnubrögðin. Núna þegar allar fagnefndir þingsins hafa kafað ofan í málin er virkilega þörf á því að geta átt samtal við hæstv. ráðherra. Þess vegna er bagalegt hversu fjarri þeir hafa verið í umræðunni og sjálf myndi ég t.d. mjög gjarnan vilja geta rætt við hæstv. heilbrigðisráðherra um það hvað hann hefur að segja um þá tillögu að setja stjórn yfir Landspítalann.

Mér finnst að við þurfum að skoða þessi vinnubrögð því að þetta er stóra mál ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) sem verið er að ræða og þá verðum við að geta haft aðgang að ráðherrum til að ræða við þá.