146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

viðvera ráðherra við umræður um fjármálaáætlun.

[11:22]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég held að það sé nokkuð ljóst að málið er ekki tækt til afgreiðslu fyrr en allir hafa komið hingað inn og tekið þátt í umræðunum. Í meirihlutaáliti fjárlaganefndar segir, með leyfi forseta:

„Þessi fjármálaáætlun ber þess merki að nýr meiri hluti hefur ekki haft nægan tíma til að undirbúa og útfæra fjármálaáætlun næstu ára. … Langt er í land til að hægt sé að segja að verklag og vinna við hina nýju umgjörð sé ásættanleg …

Ríkisstjórnin hefur því haft mjög stuttan tíma til að undirbúa málið og ber það þess nokkur merki, hvort sem horft er til hinnar eiginlegu fjármálaáætlunar eða markmiðssetningar einstakra málefnasviða.“

Síðan er farið yfir það lið fyrir lið og ríkisstjórnin hirt af stjórnarliðum. En þó að nefndin komist svo að þeirri merkilegu niðurstöðu á bls. 19 að hún geri ekki athugasemdir við þingsályktunartillöguna held ég að það byggist fyrst og fremst á hinni hefðbundnu þrælslund þingmanna í garð ráðherra og stjórnar og óttanum við (Forseti hringir.) að menn þurfi að fara í nýjar kosningar. Ég held að við ættum að gefa okkur tíma til að tala um þetta plagg öll saman hérna inni.