146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

viðvera ráðherra við umræður um fjármálaáætlun.

[11:25]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Ég vil bara benda á að hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra er næstur á mælendaskrá, þannig að vilji menn fá sýn ráðherra ríkisstjórnarinnar á ríkisfjármálin held ég að tíma okkar væri betur varið að hlusta á það sem hann hefur fram að færa en að sinna því sem við erum að gera núna. Ég verð líka að segja að þó að ég viti að það sé hefð fyrir því að finna að því að ráðherrar séu ekki viðstaddir, þá er augljóst í þessu tilfelli að heilbrigðisráðherra hefur fullkomlega lögmæt og réttmæt forföll þar sem hann er að hitta kollega sína á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Ég held að við ættum ekki að leika okkur að því að finna að því þegar menn gera það. Ég hef þá draumsýn sjálfur að Ísland muni taka enn virkari þátt í alþjóðasamstarfi, t.d. með aðild að Evrópusambandinu, og verði það að veruleika verða fjarvistir sem þessar regla en ekki undantekning.