146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

viðvera ráðherra við umræður um fjármálaáætlun.

[11:26]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Vissulega er það svo að ráðherrar hafa skyldum að gegna hérlendis og erlendis. Ég man þá tíð í stjórnarsamstarfinu 2009–2013 að ráðherrar voru kallaðir heim frá útlöndum vegna þess að mikilvægt þótti að þeir væru hér við umræðu. Við erum að tala um afar mikilvæg mál, stærsta mál ríkisstjórnarinnar. Mér þætti í sjálfu sér ekkert óeðlilegt áður en við lykjum umræðunni á þingi að heilbrigðisráðherra kæmi til að svara þeim spurningum sem hefur verið velt upp. Ég vil líka halda til haga að það eru margir að ræða ríkisfjármálaáætlun, sem betur fer, vegna þess að þekking þingsins með breyttu vinnufyrirkomulagi er meiri en hefur verið áður. Það er af hinu góða. En ég vil t.d. geta rætt við hæstv. menntamálaráðherra um af hverju hann ákveður að þrengja svigrúm nemenda til fjölbreytts náms með því til að mynda að sjá til þess að Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað verði ekki lengur við lýði. Ætlar hann að gera slíkt hið sama við Hússtjórnarskólann í Reykjavík? Ætlum við að loka á þetta nám? Af hverju stendur heilbrigðisráðherra ekki í lappirnar gagnvart fækkun sjúkrabíla (Forseti hringir.) á Tröllaskaga? Eða gagnvart því að ekki er samið við sjúkraflutningamenn í Húnavatnssýslum? Þetta eru stór mál sem skipta samfélagið gríðarlega miklu máli. Af hverju vill hann ekki stuðla að félagslegu heilbrigðiskerfi sem var í Fréttablaðinu í gær fjallað um að væri miklu betra en það einkarekna? Við höfum engin svör.