146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:30]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Ég verð að segja að það er talsvert meiri eftirspurn eftir þessari ræðu en ég hafði gert mér grein fyrir. Það setur vissulega á mig ákveðinn þrýsting og pressu. Ég veit það líka sem rétt er, að þingmenn, og sér í lagi þingmenn stjórnarandstöðu, munu sitja hér þétt í salnum og hlusta vel.

Það er ánægjulegt að fá tækifæri til þess að fjalla um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, þá stefnu og framtíðarsýn sem í henni felst. Mig langar til þess að byrja umræðuna á hinum breiðu línum í stjórnarsáttmálanum, sem m.a. birtast í ríkisfjármálaáætluninni, en þó ekki allar, en sem áhugavert er að hafa í huga í tengslum við umræðu um áætlunina sjálfa.

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að byggja hér á traustum grunni. Það skapar okkur þau tækifæri sem við höfum þó til þess að efla grunnstoðir samfélagsins, efla grunnstoðir heilbrigðiskerfisins og velferðarkerfisins. Þar skiptir gríðarlega miklu máli að við sköpum hér öflug samkeppnishæf lífskjör til framtíðar. Það er ein af meginstefnum í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar, af því að ég hef hlustað eftir því í umræðum hér á þingi að kallað er eftir pólitískri sýn og hún sögð ekki vera fyrir hendi eða að þar skorti verulega á. Þar er ég svo hjartanlega ósammála þeim sem þannig hafa mælt því að hér er einmitt ríkisstjórn komin til valda sem hefur talað og sett skýrt fram í stjórnarsáttmála mikilvægi þess að við hlúum að grunnstoðunum, að við hlúum að jarðvegi fyrir öflugt, gott atvinnulíf sem skapar hér öflugt og hátt velferðarstig, því að velferðarkerfi hvílir alltaf á verðmætasköpuninni í samfélaginu.

Það er ekki svo, eins og mætti stundum ætla af orðum og álitum minni hlutans um ríkisfjármálaáætlun, að okkur séu engin takmörk sett um hversu langt við getum gengið í skattlagningu, að okkur séu engin takmörk sett um það hversu mikið við getum aukið við í ríkisútgjöldum á öllum sviðum. Maður saknar þess í umræðunni að það skortir alla ábyrgð á gagnrýninni. Það er auðvitað ódýrt að krítísera allt það sem sagt og gert er í þessari áætlun þegar aldrei þarf að standa við stóru orðin. Hér erum við að ramma inn ríkisfjármálaáætlun sem felur í sér mjög mikla aukningu ríkisútgjalda til viðbótar við þá miklu aukningu sem þegar hefur orðið, að tryggja þeirri áætlun nægt fjármagn þannig að hún stuðli þó að meginmarkmiðum peningastefnu, auki aðhald í efnahagslífinu, stuðli að því sem miklu máli skiptir, að við getum hér lækkað vaxtastigið, sem er allt of hátt.

Þessi ríkisstjórn hefur líka sett á oddinn það mikilvæga málefni að endurskoða peningastefnuna, sem lengi hefur verið kallað eftir, til þess að stuðla að stöðugleika í gengi, sem stuðlar aftur að fjölbreyttara og öflugra atvinnulífi og betri stoðum undir velferðarkerfið, til þess að stuðla að lægra vaxtastigi fyrir heimilin í landinu. Í alþjóðlegu samhengi keppum við í dag um búsetu við allan okkar umheim. Unga fólkið okkar getur menntað sig og starfað hvar sem það kýs. Auðnist okkur ekki að skapa hér samkeppnishæf lífskjör, samkeppnishæft vaxtastig, samkeppnishæft launastig, og svo mætti áfram telja, þá verðum við undir í þeirri samkeppni og töpum frá okkur okkar færasta fólki. Svo má auðvitað aldrei verða.

Það er þannig í stjórnmálaumræðunni að stjórnmálamenn tala gjarnan um að störfin séu sköpuð í þessum sal. Það er auðvitað fjarri sanni. Við getum hins vegar skapað jarðveginn. Við getum skapað umgjörðina. Við getum tryggt að atvinnulífið hér og heimilin búi við sambærilegt stöðugt umhverfi við lágt vaxtastig eins og er í nágrannalöndum okkar. Það er mjög ríkt stef í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar.

Þá að efni máls, fjármálaáætlun og út frá áherslum ráðuneytis míns og míns flokks.

Það er svolítið sérstakt að horfa á og hlýða á umræðuna um að verið sé að skera niður útgjöld til velferðarmála á sama tíma og augljóst er að verið er að auka hér ríkisútgjöld verulega á gildistíma þessarar fjármálaáætlunar. Forgangsröðunin er greinilega öll á velferðarmálin, heilbrigðismál, málefni aldraðra og öryrkja. Þar er langmestu aukninguna að finna og er hún í öllum megindráttum í takt við þær áherslur sem flokkur minn, Viðreisn, lagði í aðdraganda kosninga, í kosningabaráttunni sjálfri. Ég held að sjaldan ef nokkurn tímann hafi jafn duglega verið bætt við þennan málaflokk. Hækkun til heilbrigðismála á tíma áætlunarinnar frá fjárlögum 2017 er 42 milljarðar kr. á ársgrundvelli, það er 22,5% hækkun. Til velferðarmála er hækkunin á ársgrundvelli 28 milljarðar, um 15%. Það þarf ansi skapandi endurskoðanda til þess að kalla það niðurskurð til velferðarmála þegar augljóst er að þorri aukningar, ef við horfum til heildaraukningar í fimm ára ríkisfjármálaáætlun, liggur á þessum tveimur málaflokkum. En í daglegu tali virðist þetta vera nefnt grundvallarniðurskurður á heilbrigðiskerfinu. Það á ég mjög erfitt með að sjá passa saman við staðreyndir.

Í þessari umræðu er stjórnarandstöðunni ansi tíðrætt um að Viðreisn hafi fórnað öllum sínum helstu stefnumálum til þess að ná í gegn jafnlaunavottun og komast í ríkisstjórn. Það er mjög gaman að bera áherslur okkar saman við ríkisfjármálaáætlun, því að með kosningaloforðum okkar fyrir kosningar undir formerkinu „Sýnum á spilin“, settum við fram mjög vel sundurliðaðar áherslur í ríkisfjármálum. Þar lögðum við áherslu á að á kjörtímabilinu yrðu útgjöld til heilbrigðismála aukin um 40 milljarða á ári við lok kjörtímabils. Niðurstöðutala þessarar fjármálaáætlunar er 41 milljarður. Við stöndum því fyllilega undir þeim loforðum sem við gáfum. Það er reyndar talsvert meiri aukning til almannatrygginga en við boðuðum. Það helgast m.a. af þeim breytingum sem urðu í meðförum þingsins síðastliðið haust og aukinni áherslu á sérstaka hækkun lægstu bóta og þeirri endurskoðun sem nú á sér stað á fyrirkomulagi örorkulífeyris.

Ég held að í því samhengi sé ákaflega mikilvægt að horfa til þess ef við ræðum fjármálaáætlunina í breiðu samhengi. Hér er verið að auka rekstrarútgjöld ríkissjóðs um rúmlega 80 milljarða yfir gildistíma áætlunarinnar. Þegar gagnrýnt er að ekki sé nóg að gert þá horfir maður til þess að áætlunin byggir á sterkri stöðu hagkerfisins núna. Það auðveldar okkur verkið mikið, því að við getum forgangsraðað mjög myndarlega í þágu heilbrigðiskerfis og velferðar á grundvelli þeirrar öflugu tekjuöflunar sem ríkissjóður býr við núna. Vonandi fylgir það ástand okkur áfram þó svo að við þurfum vissulega að vera á varðbergi gagnvart ýmsum hættumerkjum í þenslu í hagkerfinu. En það skiptir þá sköpum að ríkisfjármálin styðji við hagstjórnina í landinu, svona til tilbreytingar.

Það er nú eitt af því sem gagnrýnt hefur verið að aðhaldsstigið sé of mikið, að við sníðum okkur of þröngan stakk. Þá horfir maður til markmiðsins um 1,5% afgang ríkisfjármálanna sem hlutfall af landsframleiðslu á næsta ári. Það skiptir gríðarlega miklu máli, og á sjálfsagt talsvert drjúgan hlut í því að Seðlabanki er farinn að lækka vexti á nýjan leik, að hér ríkir enn þá töluverður verðlagsstöðugleiki og væntingar eru um að við getum áfram búið við svo öflug skilyrði í hagkerfinu. Það hefur nefnilega verið svo í gegnum tíðina að stjórn ríkisfjármála hefur algjörlega verið úr takti við viðfangsefni hagstjórnar á hverjum tíma. Ég held að það sé það stærsta og mikilvægasta í tengslum við breytt vinnulag þingsins við gerð fjármálastefnu og fjármálaáætlunar að ná stilla saman hagstjórn og stjórn ríkisfjármálanna því að það er einn áhrifamesti þátturinn í hagstjórninni, fyrir utan vaxtaákvarðanir Seðlabanka og fyrir utan launaákvarðanir á vinnumarkaði.

Ég fagna því að við höfum nú náð betur utan um vinnubrögðin í kringum ríkisfjármálaáætlunina. Ég tel að umræðan hafi verið mjög ítarleg og vönduð. Það er mikilvægt að hún sé það, þó að ég sakni þess stundum að hún sé ekki meira á þeim grunni sem fjármálaáætlun er ætlað að vera, þ.e. á málefnasviðunum sjálfum. Við erum að skapa okkur ramma utan um málefnasviðin sjálf. Þar með er ekki búið að ákvarða fjárveitingu til einstakra verkefna innan málefnasviðsins. Það er áfram viðfangsefni í umræðunni um fjárlög hverju sinni. Það er mikilvægt að gera þennan greinarmun þannig að við týnum okkur ekki í umræðu um smæstu atriði ríkisreiknings á sama tíma og við mótum þennan ramma, ákveðum forgansgsröðun í ríkisfjármálum á hverjum tíma.

Þar þykir mér ákaflega mikilvægt að við horfum skýrt á hvar forgangsatriðin liggja. Það kemur ágætlega fram í meirihlutaáliti fjárlaganefndar þegar búið er að brjóta niður hvar mesta aukningin er. Hún er einmitt í þeim flokkum sem ég nefndi hér áðan varðandi heilbrigðismálin og varðandi velferðarmálin að öðru leyti. Umhverfismál eru mjög áberandi í forgangsröðuninni hjá okkur en réttilega er bent á að meira mætti leggja til menntamála.

Það verður þó að hafa það í huga að hér er gerð grundvallarbreyting á framhaldsskólanum með óbreyttu ríkisframlagi en með ári styttri námstíma en áður var. Í því hlýtur að auki að felast, ef frá er skilin fækkun námsára, að nemendum fer jafnframt fækkandi. Það hlýtur að þýða að framlag á hvern nemanda mun aukast allverulega. Þegar við horfum til forgangsröðunar í þessa málaflokka getur það varla talist niðurskurður til framhaldsskólastigsins þegar nemendum er að fækka, þegar árum að baki náminu fækkar, en útgjöld haldast að raungildi meira minna hin sömu. Ég get því ekki tekið undir þá gagnrýni að hér sé verið að vega að grunnstoðum menntunar í samfélaginu.

Hið sama á við þegar við horfum til háskólastigsins. Þar er verið að auka útgjöld allmyndarlega. Á sama tíma er nemendum að fækka eftir hinn mikla kúf sem fór í gegnum háskólanám í kjölfar hruns. Þá erum við að nálgast meira jafnvægisástand innan háskólanna, sem þýðir enn og aftur að útgjöld á hvern nemanda munu aukast verulega.

Í umræðunni í samfélaginu er fullkomin samstaða um forgangsröðun í átt til velferðar. Undir það er tekið mjög myndarlega í þessari fjármálaáætlun með forgangsröðun fyrir heilbrigðiskerfið. Það skiptir gríðarlega miklu máli að við eflum heilbrigðiskerfi okkar á nýjan leik eftir mikinn samdrátt í framlögum til þess á mjög erfiðum tímum hér á árunum 2009–2013. Við sjáum að við erum að komast aftur á sama ról í vexti útgjalda til heilbrigðismála og við vorum fyrir hrun. Það sjáum við ef við berum það saman á föstu verðlagi, að teknu tilliti til þess tæplega 2% vaxtar sem þarf að vera í framlögum til heilbrigðismála til þess að standa undir öldrun og líffræðilegri þróun þjóðarinnar.

Jafnframt er lagt fjármagn til byggingar nýs spítala. Ég held að sú sýn sem birtist í fjármálaáætlun fyrir heilbrigðiskerfið sé um margt mjög athyglisverð. Alla vega er þetta í fyrsta skipti sem ég sé sett fram svar með skýrum hætti við þeirri gagnrýni sem verið hefur á heilbrigðiskerfi okkar svo lengi, sem er að það vanti yfirsýn, það vanti heildarstefnu. Það er ágætt að vísa í margumrædda McKinsey-skýrslu sem segir: Ekki er verið að horfa á heilbrigðiskerfið í heild. Verið er að horfa á einstaka þætti þess, þar er svokölluð sílóhugsun, við horfum ekki á samspil einstakra þátta heilbrigðiskerfisins.

Þetta samspil og áherslan á það sést mjög glögglega í fjármálaáætluninni þar sem lögð er áhersla á að efla heilsugæsluna, efla þann þátt heilbrigðiskerfisins sem valdið hefur Landspítalanum verulegum kostnaði vegna vangetu sinnar til þess að sinna þeirri eftirspurn sem þar er. Það er vel þekkt að neyðarmóttaka Landspítalans sinnir fjölda sjúklinga á hverjum degi sem á að sækja þjónustu til heilsugæslunnar, en leitar einhverra hluta vegna inn á þetta stig sem er einn dýrasti þátturinn í heilbrigðiskerfi okkar.

Á sama tíma leggjum við líka verulega fjármuni í uppbyggingu öldrunarþjónustu til þess að létta á öðrum þætti Landspítalans sem verið hefur mjög íþyngjandi, sem er vangetan til að útskrifa sjúklinga, þar sem spítalinn hefur engan stað til að senda fólk á sem ekki getur snúið aftur heim. Það skiptir gríðarlega miklu máli.

Sú mikla útgjaldaaukning sem verður til þessara tveggja stoða í heilbrigðiskerfinu mun auðvitað létta verulega á kostnaði Landspítalans og þar af leiðandi auka getu hans til þess að sinna sínum mikilvægu verkefnum, til viðbótar við þá aukningu sem spítalinn fær sjálfur. Í þessu samhengi gleymist líka gjarnan mikilvægi byggingar nýs spítala, það hagræði sem sú bygging mun fela í sér fyrir heilbrigðiskerfið, fyrir spítalann sjálfan, bæði í aukinni afkastagetu og lægri kostnaði. Allt endurspeglar það mjög vel hversu rík áhersla er lögð á heilbrigðismálin í ríkisfjármálaáætluninni.

Þegar kemur að almannatryggingum og velferðarmálum almennt þá er lögð gríðarlega mikil áhersla á kjör aldraðra. Hér er verið að hækka lágmarksbætur áfram. Hér er lögð áhersla á að auka sveigjanleika til atvinnuþátttöku, hækka frítekjumark atvinnutekna aldraðra, og horft til þess að aldraðir fái betur notið starfskrafta sinna, kjósi þeir svo. Það sést ágætlega í tölum sem velferðarráðuneytið birti nú nýverið varðandi kjaraþróun aldraðra að orðið hefur mjög mikil breyting og verður framhald á því um næstu áramót þegar kemur að kaupmætti sérstaklega þeirra tekjulægstu í hópi aldraðra þar sem við horfum á fjórðungshækkun fyrstu, annarrar og þriðju tekjutíundar aldraðra milli áranna 2016 og 2017. Verður framhald á þeirri þróun á næsta ári þegar enn frekar verður lyft undir lægstu fjárhæðir bóta. Það skiptir gríðarlega miklu máli. Samhliða því er mikilvægt að auka sveigjanleika í tengslum við starfslok, auka möguleika fólks til þess að vinna lengur, kjósi það svo, og njóta afraksturs erfiðisins í formi frítekjumarka á atvinnutekjur þar sem það á við.

Í öðru lagi er lögð mikil áhersla á málefni öryrkja. Ég held að það sé eitt mikilvægasta verkefni velferðarkerfisins á næstu misserum. Hvernig getum við snúið örorkulífeyriskerfi okkar úr örorkumati því sem stuðst er við í dag, í starfsgetumat til framtíðar? Að við byggjum á getu fólks en ekki vangetu, að við tryggjum fólki úrræði til starfsendurhæfingar og til atvinnu? Þarna verið að leggja stóraukið fjármagn í atvinnu með stuðningi, atvinnuúrræði fatlaðra og öryrkja í gegnum Vinnumálastofnun, en jafnframt er boðuð mjög mikil áhersla á það verkefni að tengja betur saman fræði stuðningskerfis okkar þegar kemur að örorkunni, varðandi geðheilbrigði og önnur heilbrigðisúrræði, þegar kemur að undanfara starfsendurhæfingar, en ekki síður að starfsendurhæfingin virki sem skyldi, skili sannarlega aukinni starfsgetu og að starfsgetumati loknu fylgi nauðsynleg úrræði til atvinnuleitar í framhaldinu því að það er auðvitað lykilatriði að tengja. Ég heyri og skynja mjög vel áhyggjur Öryrkjabandalagsins í þessu efni. Það er auðvitað nauðsynlegt og brýnt þegar í þessar breytingar verður ráðist að við höfum mjög skýra áherslu á atvinnuúrræði öryrkja og stuðningi til þeirra hvað það varðar.

Við vitum líka að sú þróun sem hefur verið hér á undanförnum árum er algjörlega ósjálfbær fyrir okkur sem samfélag. Ört hækkandi hlutfall öryrkja utan vinnumarkaðar er mikið áhyggjuefni, ekki bara fyrir velferðarkerfið vegna einhvers kostnaðar sem þar fellur til, heldur ekki hvað síst vegna þeirra skertu lífsgæða sem fylgja þessari stöðu.

Ég segi og hef sagt svo sem hér áður: Mér finnst velferðarkerfi okkar hafa brugðist þessum hópi þegar kemur að úrræðum í endurhæfingu, þegar kemur að því að varða leiðina aftur til virkni í samfélaginu. Sú virkni þarf ekkert alltaf að vera virkni á vinnumarkaði. Það getur vel verið að sú staða sé uppi að fólk eigi ekki afturkvæmt á vinnumarkað, en það skiptir engu að síður alveg gríðarlega miklu máli að við tryggjum þeim virkni í samfélaginu. Og undir öllum kringumstæðum greiðum þeim auðvitað leiðina inn á vinnumarkað þar sem það er hægt. Við munum aldrei standa undir mannsæmandi velferð þessa hóps öðruvísi en styðja þau með öllum ráðum til sjálfsbjargar, til að varða þeim leiðina aftur inn á vinnumarkað og styðja við endurhæfingu og atvinnuúrræði.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri enda er ræðutíma mínum lokið, (Forseti hringir.) en ég hlakka til umræðunnar í kjölfarið.