146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:51]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Okkur líður ágætlega í þessu ríkisstjórnarsamstarfi. Ég held að þegar við rannsökum í kjölinn hvernig uppbygging heilbrigðiskerfisins okkar er í dag þá er hún mjög fjölbreytt. Það er alveg rétt, það er yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar sem vill opinbert heilbrigðiskerfi. Það er ekkert annað á stefnuskrá þessarar ríkisstjórnar en að allar meginstoðir heilbrigðiskerfisins, ekki síst Landspítalinn sjálfur, séu að sjálfsögðu áfram í opinberum rekstri. (Gripið fram í.)Staðreyndin er hins vegar sú að við búum líka við mjög fjölbreytt rekstrarfyrirkomulag í heilbrigðiskerfinu. Við erum með sjálfstætt starfandi lækna sem mikilvæga stoð sem ég held að megi ekki vanmeta. Við erum með öldrunarþjónustuna okkar meira og minna rekna af sjálfseignarstofnunum. Það er auðvitað mikil fjölbreytni í því hvernig heilbrigðiskerfið okkar er rekið og starfrækt. Það er ekki afsprengi einnar ríkisstjórnar. Það er kerfi sem hefur mótast í gegnum áranna og áratuganna rás og hefur, held ég, skapast ágætissamstaða um.