146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:58]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þarna var gaman. Þarna kom nefnilega hægri maðurinn upp í hæstv. ráðherra. Akkúrat, nema bara að þessi ríkisstjórn ætlar ekki að leyfa sjálfvirkum sveiflujöfnurum að virka í báðar áttir, þeir eiga bara að virka í aðra átt. Það á bara að nota þá til þess að taka hlutföll samneyslunnar niður meðan hagvöxtur er, en ef slær í bakseglin þá er komið þak sem bannar að hlutföllin aukist til þess að milda höggið fyrir samfélagið. Þetta er einhver mesta hægri stefna sem nokkurn tímann hefur verið borin á borð. Ég held að þeir kóngar Chicago-háskólans hefðu ekki getað gert betur. Þetta er svo grimmilegt. Þetta er pólitísk yfirlýsing um að það á að fara niður með velferðarsamfélagið á Íslandi. Ekkert annað.

Ég er sammála hæstv. ráðherra um mikilvægi þess að horfa heildstætt á heilbrigðiskerfið og ágætt að ráðherrann hafi áhuga á því. Hann hefði kannski átt að taka það ráðuneyti að sér en ekki útlendingurinn.

Eru innstæður fyrir því sem hæstv. ráðherra sagði (Forseti hringir.) að í þessari áætlun eigi að efla heilsugæsluna og auka hjúkrunarúrræði? Það á að byggja 260–290 ný hjúkrunarrými (Forseti hringir.) fram til 2022. Það er helmingur af áætlaðri þörf. Hvernig getur hæstv. ráðherra staðið hér og (Forseti hringir.) sagt að það eigi að gera átak í því, m.a. svona, að (Forseti hringir.) leysa fráflæðisvanda Landspítalans?