146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:01]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta voru áhugaverðar umræður. Ég hefði viljað eiga þessi samtöl miklu oftar við ráðherrana í þingsal og að þeir kæmu líka í andsvör við okkur þingmenn.

Mig langar aðeins að ræða ríkisfjármálaáætlun út frá málaflokki ráðherrans. Ég tel að margt sé mjög vanáætlað og vanfjármagnað þar inni, hvort sem það er barnalífeyririnn, frítekjumarkið eða NPA. Ég hef miklar áhyggjur af því að við náum ekki utan um það eins og það er lagt upp hér.

Á bls. 327 í áætluninni segir að það eigi einmitt að fara í heildarendurskoðun á barnalífeyrismálunum. Ég hef áhyggjur af því að það takist ekki.

Ekki er lagt til að lengja fæðingarorlofið, ekki er lagt til að setja lágmarksgreiðslur þannig að það fylgi lágmarkslaunum eða að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Fram kom í svari frá hæstv. ráðherra að hámarksgreiðslurnar gagnist fæstum mæðrum, miklu færri en feðrum. Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) hvernig eigi að bregðast við því.