146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:05]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta andsvar. Bara til þess að klára fæðingarorlofið. Ég hef alls ekki lagst gegn því og við erum raunar með til skoðunar leiðir til þess að tryggja sérstaklega kjör þeirra lægstlaunuðu inn í núverandi kerfi með einhvers konar gólfi. Ég hef heldur ekki útilokað lengingu fæðingarorlofs, ég hef bara sagt að það sé forgangsatriði að endurreisa fyrirkomulagið til fyrri virkni til þess að tryggja jafnréttishlutverk þess inn á vinnumarkaðinn. Að taka fæðingarorlofs sé ekki háð tekjustigi eða kyni.

Hvað varðar málefni öryrkja og þessar krónu fyrir krónu skerðingar þá er auðvitað algjört forgangsmál að endurskoða það fyrirkomulag lífeyris til samræmis við það sem gert var varðandi ellilífeyrinn. Það er hins vegar alveg ljóst að fjárhagslegt svigrúm á næsta ári er takmarkað út af mikilli hækkun lágmarksbótafjárhæða og þeim kostnaði sem því fylgir. Þess vegna er gert ráð fyrir í ríkisfjármálaáætlun að nýtt kerfi (Forseti hringir.) taki við 1. janúar 2019, en við erum þegar búin að hleypa af stað vinnu við mótun þess kerfis og munum að sjálfsögðu (Forseti hringir.) innleiða það eins hratt og okkur gefst færi til.