146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:08]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þyrfti nú bara að skoða forsendur útreikninga fyrri ríkisstjórnar betur til þess að geta svarað því nákvæmlega. Í ríkisfjármálaáætlun eru tveir stórir kostnaðarkúfar, getum við sagt; annars vegar hækkun lágmarksbótafjárhæða úr 280 þús. kr. í 300 þús. kr. um næstu áramót, og hins vegar þessi grundvallarkerfisbreyting sem gert er ráð fyrir. Það eru engar grundvallarbreytingar sem settar hafa verið fram í þeim útreikningum á nýju kerfi sem á að taka við. Gert er ráð fyrir að slíkt kerfi verði fyllilega sambærilegt við ellilífeyrinn, þ.e. að bótaflokkar verði sameinaðir í einn grundvallarbótaflokk og skerðingar verði sambærilegar við það sem er hjá ellilífeyrisþegum, þ.e. 45% skerðing óháð tekjum. En við þurfum í því samhengi sérstaklega að horfa til atvinnutekna með sama hætti og við erum raunar að innleiða gagnvart ellilífeyrisþegum, að tryggja að það séu innbyggðir hvatar í þessum kerfum til atvinnuþátttöku og að fólk njóti góðs af. Það hafa engar eðlisbreytingar átt sér stað á þeim forsendum.