146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:09]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Næst langar mig að spyrja örlítið út í fæðingarorlofsmálin og reyndar kom hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir örlítið inn á það áðan. Í ríkisfjármálaáætlun kemur fram að hækka eigi greiðslur í fæðingarorlofi og er það vel. Ég fagna því að verið sé að reyna að höfða til feðra til að njóta stunda með börnunum sínum. Hæstv. félagsmálaráðherra sagði að hann væri að skoða þetta með gólfið og lenginguna.

Mig langaði að spyrja hann út í annað atriði sem tengist fæðingarorlofsmálunum og tengist máli sem við hv. þingmenn Framsóknarflokksins lögðum fram, sem var að koma á móts við foreldra sem þurfa að sækja fæðingarþjónustu fjarri heimabyggð og þurfa að hefja töku á fæðingarorlofi mun fyrr til þess að fá fæðingarþjónustu. Er hæstv. félagsmálaráðherra að skoða aðgerðir í þeirra þágu um að það fólk geti fengið framlengingu á fæðingarorlofi sem nemur þeim tíma sem það þarf að bíða eftir barni fjarri heimabyggð?