146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:32]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þetta. Það er nefnilega þetta með gagnsæið sem mikið hefur verið talað um. Sjálfsagt erum við búin að vera hérna að hlusta á umræðuna, sem ég hef náð að mestu leyti, í um 20–30 klukkustundir og víða er farið. Menn hafa margir hverjir talað um gagnsæi og slíka þætti. Hefði það þá ekki verið í anda þess að fá með gagnsæinu hvar menn ætla að ná þessum miklu tekjum? Þetta eru um 334 þúsund milljónir sem lagt er til í þessari breytingartillögu með auknum skatttekjum til ríkisins. Þetta er milljón á hvert mannsbarn í landinu, fjögurra manna fjölskylda, 4 milljónir. Rúm milljón á ári. (BjG: Hvaðan koma þessir peningar til þess að …?) Það er víða hægt að skoða þau mál. Það er hagvöxtur í landinu. En það sem ég hef verið að vekja athygli á og skiptir gríðarlega miklu máli er: Er þetta öguð hagstjórn? Þetta snýst nefnilega um að komast í gegnum þetta tímabil standandi. (Forseti hringir.) Það er auðvelt að hleypa hlutunum upp með því að leggja fram svona galnar hugmyndir, eins og menn hafa stundum sagt í ræðustól. Þetta er galin hugmynd.