146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:37]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er akkúrat þetta með byggðamálin. Þau hafa að mínu mati fengið allt of litla umfjöllun í þinginu við þessa umræðu. Auðvitað skilur maður að önnur stór mál taki plássið. En þetta er samt eitt stærsta málið, að tryggja byggð í öllu landinu. Hvernig gerum við það?

Ég hef sagt um námslánakerfið að það þekkist sum staðar að það sé nýtt til þess að laða að fólk til starfa. Mér finnst að minnsta kosti að við eigum að skoða það. Velta því fyrir okkur hvort það geti skipt máli. Það þarf að kanna það hjá þeim sem eru í sérstaklega þeim störfum sem vantar fólk í úti á landsbyggðinni. Svo þurfum við að skilgreina hver grunnþjónusta á landsvæðum eigi að vera og þrengja svo niður í minni svæði. Það er að mínu mati bráðnauðsynlegt og ætti að vera löngu búið að gera það. Við skilgreinum margt sem grunngildi í hverju samfélagi, þ.e. grunnþarfir eða -þjónustu. Ég held að það þurfi að koma til. Námslánakerfið er eitt af því sem gæti stutt við þær hugmyndir.

Skattafsláttur til og frá heimilum í dreifðari byggðum? Jú, ég held að það mætti skoða það. Nú hafa verið lagðar fram þingsályktunartillögur af hálfu hv. þingmanns, eða í það minnsta fyrirspurn um þau efni sem ég held að sé vert að skoða. Ég tek undir að fyrirtæki flytjast frá landsbyggðinni — en margt spilar þar inn í. Ég er ekki viss um að tryggingagjaldið ætti að vera mismunandi eftir staðsetningu fyrirtækja, en það er margt annað sem mætti skoða í því efni. Í því samhengi mætti skoða ýmislegt, eins og alls konar flutningskostnað og annað sem íbúar hinna dreifðu byggða þurfa að bera, orkukostnað og annað slíkt.