146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:39]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni afar góð og skýr svör. Ég er sammála henni um að það sé mikilvægt að skoða þessar aðgerðir. Einnig kom hv. þingmaður inn á nýja greiðsluþátttökukerfið sem nú hefur tekið gildi. Við samþykktum nefndarálit síðasta sumar um að greiðsluþátttökuþakið yrði að hámarki 50 þús. kr. en 33 þús. kr. fyrir börn, aldraða og öryrkja en nú er þakið hærra en við samþykktum. Í nefndaráliti 2. minni hluta velferðarnefndar, sem ég skrifaði, kemur fram mikilvægi þess að við göngum lengra inn í greiðsluþátttökukerfið og bætum við t.d. tannlækningum aldraðra, sálfræðiþjónustu, ferðakostnaði, og sameinum þau tvö kerfi sem varða lyf og heilbrigðisþjónustu. Tekur hv. þingmaður ekki undir mikilvægi þess? Í ríkisfjármálaáætlun sér þess ekki stað því að það er svo mikið ógagnsæi þegar kemur að þessum málaflokki þar.