146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:03]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Í ræðu minni á miðvikudaginn fór ég yfir umsögn 3. minni hluta velferðarnefndar um fjármálaáætlun og náði ekki að klára yfirferðina. Þar talaði ég um sjúkrahúsþjónustu og heilbrigðisþjónustu yfir höfuð, örorku, lyf og lækningavörur og málefni aldraðra og fleira, og ætla hér að halda áfram og tala jafnframt um vinnumarkað og atvinnuleysi.

Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er áætlað að atvinnuleysisbótatímabil verði stytt úr 30 mánuðum í 24 mánuði. Felur það í sér frekari skerðingu á réttindum atvinnuleysisbótaþega, sem þegar hafa þurft að þola skerðingu úr 36 mánuðum í 30 mánuði. Nú er fyrirhuguð frekari skerðing á þessum réttindum. Er það gert á grundvelli þess að atvinnuástand í samfélaginu sé gott og að ekki sé þörf á svo löngu atvinnuleysisbótatímabili. Mikilvægt er að gæta að því að þeir sem eiga samt rétt til að þiggja atvinnuleysisbætur í 30 mánuði haldi þeim rétti. Nú þegar er til meðferðar hjá Hæstarétti dómsmál varðandi þetta efni frá því þegar atvinnuleysisbótatímabil var stytt úr 36 mánuðum í 30 mánuði þar sem réttindi voru tekin af fólki afturvirkt. Við verðum að passa að það gerist ekki aftur.

Þá er það áhyggjuefni að stytta eigi atvinnuleysisbótatímabilið á sama tíma og gerðar eru róttækar breytingar á örorkumati. Atvinnuleysisbætur eru mikilvægt öryggisnet fyrir þá einstaklinga sem eiga erfitt með að finna sér vinnu við hæfi. Nokkur hætta er á því að kostnaður við þessa einstaklinga færist til sveitarfélaganna þegar atvinnuleysisbótatímabili lýkur.

Á bls. 337 í áætluninni er fjallað um helstu áskoranir vinnumarkaðarins, en þar kemur fram að helsta orsök örorku á Íslandi séu atvinnutengdir sjúkdómar, sem er dálítið sláandi. Þar eru nefndir hreyfi- og stoðkerfissjúkdómar auk geðsjúkdóma vegna streitu. Þetta risastóra vandamál á síðan að setja alfarið í hendur vinnumarkaðarins að leysa og hvergi er talað um ábyrgð stjórnvalda eða sett fé til verkefna sem væru til þess fallin að draga úr streitu. Slíku mætti t.d. ná fram með því að fækka vinnutímum og auka aðgengi að sálfræðiþjónustu. En það er ljóst að það er eitthvað stórkostlega mikið að í samfélaginu okkar ef streita og álag valda því að fólk dettur út af vinnumarkaði í örorku. Það er nokkuð sem við þurfum klárlega að horfast í augu við og skoða lausnir á. Þá vantar allt fjármagn í forvarnir, sem er furðulegt í ljósi þess hve mikill kostnaður skapast af því að láta slík vandamál ómeðhöndluð.

Mikið hefur verið rætt í samfélaginu um það neyðarástand sem ríkir á húsnæðismarkaði. Mikill skortur er á húsnæði og þá sérstaklega á suðvesturhorninu, sem hefur valdið miklum verðhækkunum á húsnæði og gerir fólki mun erfiðara fyrir, sem ekki á húsnæði fyrir, að fjárfesta í fyrsta íbúðarhúsnæði sínu. Það vekur því athygli að áætlunin gerir ráð fyrir mikilli lækkun á framlögum til þessa málaflokks.

Umræddum sparnaði á að ná fram með því að festa viðmiðunarfjárhæðir vaxtabóta til ársins 2022, sem gerir það að verkum að tekjulágir fá minni fjármuni til að greiða fyrir íbúðarhúsnæði.

Þá er gert ráð fyrir að veittir verði stofnstyrkir til bygginga allt að 1.800 nýrra almennra íbúða á árunum 2018–2021. Það verður að teljast augljóst að slík framlög munu ekki komast nærri því að svara þeirri þörf sem er fyrir íbúðarhúsnæði, en greiningaraðilar hafa metið það sem svo að uppsöfnuð þörf sé nú allt að 3.500 íbúðir og hafi þá ekki verið tekið tillit til þeirrar fólksfjölgunar sem muni eiga sér stað þar til ársins 2021. Íbúðalánasjóður hefur unnið að gerð húsnæðisáætlunar með sveitarfélögum. Slíkt samstarf getur verið til þess fallið að auka framboð á húsnæði en ljóst verður að telja að meiri þörf er á húsnæði en hér er áætlað að veita framlög til.

Það er einnig áhugavert að ekkert eigi að fara að skoða leigumarkaðinn, sem mér þykir mjög alvarlegt. Rökin fyrir því eru þau að kannanir sýni að flestir sem séu á leigumarkaði vilji kaupa sér. En þá spyr maður sig: Er það ekki eðlilegt í núverandi ástandi þar sem leigumarkaðurinn er svona erfiður að fólk vilji kaupa? Hvernig væri það ef leigumarkaðurinn væri eins og hann er víða annars staðar á Norðurlöndum þar sem fólk getur leigt sér íbúð og búið þar alla tíð á viðráðanlegu verði? Myndu þá jafn margir vilja kaupa frekar en leigja húsnæði? Mér þykir þetta ekki vera góð ástæða til að skoða ekki aðgerðir á leigumarkaði.

Varðandi lýðheilsu og stjórnsýslu velferðarmála er gert er ráð fyrir 4% aukningu útgjalda málaflokksins. Útgjöld miðað við fjárlög ársins 2017 aukast úr 8.303 millj. kr. á fjárlögum ársins 2017 í 8.658 millj. kr. eftir árið 2022. Innan við þriðjungur af þeirri fjárhæð fer í lýðheilsu, forvarnir og eftirlit. Íslenska heilbrigðiskerfið er viðbragðsdrifið en ekki forvarnadrifið, sem þýðir að þeim fjármunum sem nota mætti til forvarna er eytt margfalt í meðferð þegar sjúklingar eiga við alvarleg heilsufarsleg vandamál að stríða. Með auknum fjármunum til forvarna er hægt að ná fram miklum sparnaði auk þess sem hægt er að auka lífsgæði þeirra sem annars yrðu fyrir heilsubresti og í mörgum tilfellum örorku. Það væri því eðlilegt að auka útgjöld í forvarnir til að stuðla að bættri heilsu landsmanna.

Þess má geta í þessu sambandi að í nefndaráliti 3. minni hluta fjárlaganefndar um fjármálastefnu, sem samþykkt var í tíð fyrri ríkisstjórnar, kom eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Aukning sjúkdóma sem rekja má til lífsstíls, svo sem rangs mataræðis og hreyfingarleysis, hefur í för með sér gríðarlegan kostnað fyrir heilbrigðiskerfið. Því er í raun óskiljanlegt að ekki sé allt kapp lagt á að hemja þróunina með öllum ráðum og beita forvörnum og snemmtækri íhlutun í stað lyfja þar sem það er hægt.“

Erfitt er að greina hvaða forsendur hafa breyst frá því að þingmaður Bjartrar framtíðar skrifaði undir þetta nefndarálit sem orsakar það að ekki skuli varið meiri fjármunum til forvarna.

Forseti. Við erum rúmlega 300 þúsund manna þjóð sem er svo lánsöm að búa í gjöfulu landi, ríku af náttúruauðlindum, sem gerir okkur að einni ríkustu og þróuðustu þjóð í heimi. Ráðamenn hafa endurtekið gumað af góðu efnahagsástandi þjóðarinnar, mikið hagvaxtarskeið hefur staðið yfir um nokkurn tíma eftir miklar þrengingar. Í fjármálaáætlun er bent á að við séum að ganga inn í eitt lengsta samfellda hagvaxtarskeið Íslandssögunnar. Þó er vert að benda á að gott gengi ferðaþjónustunnar, sem og góðar makrílveiðar, hafa með sanni flýtt efnahagslegum bata þjóðarinnar eftir stórkostlegt fjármálahrun fyrir næstum því áratug.

Í þeirri gnægt sem við lifum við felst tækifæri til að fjárfesta í fólkinu í landinu með því að styrkja velferðarkerfin okkar og vinna að því markmiði að útrýma fátækt, jafna tækifæri, styrkja mannréttindi og auka velferð. Ein öflugasta leiðin til að sporna við fátækt er að tryggja að allir hafi viðunandi framfærslu og að grunnþjónusta, svo sem menntun og heilbrigðisþjónustu, sé gjaldfrjáls. Öllum ætti að vera ljóst að valdefling almennings er fjárfesting sem mun skila sér margfalt til baka þegar til lengri tíma er litið.

Það er miður að þessar áherslur er ekki að finna í fjármálaáætlun heldur er öll áherslan á áframhaldandi aðhald og niðurskurð á grunnstoðum samfélagsins. Lítil sem engin aðstoð verður fyrir þá verst settu í samfélaginu og fátækt á að halda áfram að grassera. Hér er að finna stefnu sem einkennist af stórkostlegri skammsýni og skilningsleysi á raunverulegum verðmætum landsins, sem er að sjálfsögðu fólkið í landinu.

Niðurstaða 3. minni hluta er að þessari fjármálaáætlun beri að hafna á framangreindum forsendum.

Ég vil einnig taka það fram að það hefur verið gífurlegur skortur á upplýsingum við vinnslu innan nefndarinnar og skoðun þessarar fjármálaáætlunar. Píratar hafa kallað eftir frekari upplýsingum til þess að við getum séð betur hvernig fjármunum er skipt niður á málaflokka. Það er mín einlæga von að við fáum þessar upplýsingar þannig að við getum betur skilið þetta, en ekki síst bara fyrir almenning svo almenningur sjái hvernig á í raun og veru að ráðstafa þessu fé og hvernig ríkisstjórnin hugsar framtíð samfélagsins og hvert við erum að stefna.