146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:31]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Hún gleymdi að vísu að svara því sem ég var að inna eftir, hvort hv. þingmaður teldi að það ætti kannski að hafa samstarf í fjármögnun. En látum það liggja á milli hluta. Ég velti því fyrir mér hvað það er í fjármálaáætluninni sem hv. þingmaður vill breyta til að tryggja raforkuöryggi, sem hún kom mjög inn á í ræðu sinni áðan. Hvað er það nákvæmlega, hvaða breytingar eru það sem hv. þingmaður vill sjá að við gerum á fjármálaáætluninni? Og þessu tengt, heldur hv. þingmaður að það komi til greina að við breytum eignarhaldi á Landsneti, þ.e. tökum Landsnet út úr Landsvirkjun sem á 66% eignarhlut, og færum þann eignarhlut beint undir ríkið, og Orkubú Vestfjarða og Rarik líka, og fáum hugsanlega lífeyrissjóðina sem helmingshluthafa (Forseti hringir.) inn í Landsnet og ráðumst þar með í gríðarlega mikilvæga uppbyggingu raforkudreifikerfisins, (Forseti hringir.) sem við verðum að gera því það er ein forsenda fyrir því að atvinnulíf úti á landi geti dafnað?