146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:34]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Mig langar að spyrja hana út í hvernig fjármálaáætlun kemur út gagnvart hlutum eins og menningarminjum okkar Íslendinga. Þá eru mér ofarlega í huga þær menningarminjar sem eru allt í kringum landið, strandlengjuna. Ég er nýbúin að fá svör frá þremur ráðuneytum um verndun menningarminja í kringum landið, sjóvarnir og sjávarflóð, áhættu vegna þess hvernig þau hafa áhrif á að miklar menningarminjar eyðileggjast vítt og breitt í kringum landið við ströndina. Verbúðir, sjóbúðir og annað því um líkt. Það hefur skort mikið fjármagn til Minjastofnunar til að gera verndaráætlun og skráningu fyrir allar þessar minjar. Hvort hv. þingmaður sjái að fjármálaáætlun gefi einhvern möguleika á að styrkja það. Þetta er auðvitað menningararfur okkar. Það kom í ljós við fjárlagagerð í desember fyrir þetta ár að því fé sem var áætlað í samgönguáætlun á milli áranna 2015 og 2018 til sjóvarna vegna menningarminja við strandlengjuna var öllu hent út, tekið niður. Það voru um 88 milljónir að mig minnir. Svo það er ekki mikill metnaður þarna. Maður hefur virkilegar áhyggjur af því þegar við eigum að heita á toppi hagsældar að við sem þjóð sjáum ekki sóma okkar í að vernda menningararf okkar og sögu. Við eigum ekki hallir eða kastala (Forseti hringir.) eða einhvern arkitektúr. Þetta er okkar menningarsaga. Hvað þykir hv. þingmanni um hvernig tekið er á því í fjármálaáætlun?