146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:41]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir góða ræðu. Hún kom inn á landsbyggðarmálin. Ég greip niður í fjármálaáætluninni um þróun mannfjölda á höfuðborgarsvæði og landsbyggðinni, og með leyfi forseta langar mig að vitna í það sem segir um framtíðarsýn og meginmarkmið:

„Framtíðarsýn málefnasviðsins er að allir íbúar landsins hafi jöfn tækifæri til atvinnu og þjónustu og jafnra lífskjara.

Meginmarkmið málefnasviðsins sem jafnframt eru lögfest markmið byggðaáætlunar er að efla byggðaþróun innan hvers landshluta og jafna þannig tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðamála um allt land. Sérstaklega skal hlúa að svæðum sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf.“

Þetta eru mjög göfug markmið en kannski svolítið út í loftið að mörgu leyti. Nú er Framsóknarflokkurinn með frumvarp í þinginu sem bíður atkvæðagreiðslu um heilbrigðismál, áætlun heilbrigðismála á landsbyggðinni. Mjög myndarleg þingsályktunartillaga sem fjallar um þörf heilbrigðisþjónustu út um landið. Þyrftum við ekki í ljósi stöðunnar á landsbyggðinni að gera svipaðar áætlanir um t.d. samgöngumál? Rafmagnsflutning og annað sem er nauðsynlegt (Forseti hringir.) að hafa í lagi til þess að fólk vilji fara út á land?