146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:01]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu sem ég hefði gjarnan viljað hafa meiri tíma til að spyrja út í því mér fannst margt mjög áhugavert koma fram í henni. Ég ætti kannski að byrja á að spyrja út í það sem hv. þingmaður kom inn á varðandi nýsköpun og þróun og, ja, niðurskurð, ég gat ekki skilið betur. Þar sem ég sit ekki í atvinnuveganefnd og er ekki með þessa innsýn sem hv. þingmaður hefur og eins og hann kom inn á er þetta mjög flókið og víðfeðmt, þá er maður einhvern veginn ekki í jafn miklum tengslum við þetta. Jafn mikið að marka og stefnuskrá stjórnmálaflokka? spurði hv. þingmaður. Kannski jafn mikið að marka og stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar því að þar er sérkafli um nýsköpun og þróun, að myndarlega verði stutt við rannsóknir og þróun og hlutverk samkeppnissjóða víkkað út til rannsókna á sviði skapandi greina. Auka aðgengi að vaxtarfjármagni fyrir nýsköpunar- og hugvitsfyrirtæki, að erlendum mörkuðum og nauðsynlegri erlendri sérfræðiþekkingu o.s.frv. Er ekkert af þessum fögru loforðum í stjórnarsáttmálanum að finna í þessari fjármálaáætlun?