146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:05]
Horfa

Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú reyndar ekki rétt að umhverfisráðherra hafi komið á fund nefndarinnar heldur Umhverfisstofnun. Þar var einmitt verið að ræða orkuskiptin en það kom enginn frá Landsneti. Það kom hins vegar fram í orkuskiptaáætluninni sjálfri og þar var einmitt stiklað á stóru að vissulega gæti Landsnet og Orkubú Vestfjarða og fleiri aðilar líklega fjármagnað þetta að einhverjum hluta. Þess má til gamans geta að þessir aðilar hafa verið að fjármagna þetta í fjöldamörg ár. Það hefur gengið eftir en það þurfa að koma peningar utan frá til þess að flýta fyrir þeim mikilvægu verkefnum sem blasa við í orkuflutningi á Íslandi, þá sérstaklega til að tryggja að við getum rafbílavætt. Það eru ekki almennileg kerfi til staðar á landsbyggðinni og með þjóðvegum til þess að við getum rafvætt bílaflotann.