146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:12]
Horfa

Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P) (andsvar):

Landhelgisgæslan er einmitt eitt af mínum áhugamálum. Það sem mér finnst vanta í umræðuna um þyrlukaup er að frændur okkar í Noregi eru með allt sitt sjúkraflug í þyrlum. Það eru engar sjúkraflugvélar í Noregi, af augljósum ástæðum. Að fljúga inn á firði í Noregi er eins og á Vestfjörðum. Það eru bara brjálæðingar sem gera það. En þar sem ég sé tækifæri er að ef við samstillum sjúkraflug og starfsemi Landhelgisgæslunnar þurfum við væntanlega að fjölga áhöfnum og fjölga þyrlum. Þær geta sinnt tvíþættu hlutverki. Þar af leiðandi sé ég bara tækifæri í því að efla Landhelgisgæsluna og þyrluflug hennar. Því að það er í ólestri í dag. Það er ekki alltaf sem við getum sent þyrlu á staði. Ég hef áhyggjur af því.