146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:17]
Horfa

Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson kom inn á hafði hann það eftir mér að ég hefði sagt að sjúkraflug í Noregi færi einungis fram með þyrlum. Þetta er það sem mér var tjáð af þeim sem þekkja til. Augljóslega þekkja þeir þá ekki nægilega vel til. Þannig að ég játa mig sigraðan þar. Hins vegar hafði ég verið að kanna þyrlumálin og sjúkraflug í þyrlum mikið vegna þess að mér hafði verið tjáð að það væri ekki hægt að flytja sjúklinga í þyrlum út af þrýstingi eða flugi fram hjá veðrum og þess háttar. Þegar mér er tjáð að sjúkraflug í Noregi færi einungis fram í þyrlum stökk ég náttúrlega á það sem tækifæri. En það má vel vera að það sé hugsanlega að einhverju leyti rangt.