146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:20]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í andsvari hv. þm. Njáls Trausta Friðbertssonar áðan þá er gott að vera upplýstur um málefnin, en um það snýst þessi umræða um fjármálaáætlunina dálítið. Efni fjármálaáætlunarinnar upplýsir okkur ekki nægilega vel um hvað við gerum næstu fimm árin. Það kemur skýrt og greinilega í ljós í umsögn fjármálaráðs um skort á gagnsæi og aðgang að upplýsingum í áætluninni.

Mig langar að halda áfram með nefndarálit mitt og fjalla um tæknilega framsetningu fjármálaáætlunarinnar. Þann 2. júní 2016 samþykkti Alþingi þingsályktun um tölvutækt snið þingskjala. Það þýðir ekki eins og er núna í rauninni að lög eigi að birtast bara sem html-vefsíða eða sem pdf-skjal, heldur eiga lögin að vera aðgreinanleg og lesanleg með tölvutækum hætti. Það þýðir að tölva á að geta lesið þingskjölin og upplýsingarnar í þeim á staðlaðan hátt án þess að þeim fylgi óþarfaupplýsingar sem skipta ekki máli fyrir tölvuna. Nú er til vefgátt fyrir ræður og nefndafundi og ýmislegt, en það skortir á slíkt fyrir gögn lagafrumvarpa og gögn yfirleitt, t.d. í opinberum fjármálum. Einnig er tekið sérstaklega fram í lögum um opinber fjármál að talnagrunnur fjárlaga og frumvarps fjárlaga eigi að vera aðgengilegt á tölvutæku sniði og þau gögn eigi að vera aðgengileg öllum til eftirvinnslu á tölvutækan máta. En því miður er ekki tekið fram að hið sama eigi að gilda um fjármálaáætlun því tilefnið er ærið eins og ábendingar fjármálaráðs bera með sér um aðgengi að tölum sem liggja bak við upplýsingarnar í fjármálaáætlun, að þær séu settar fram. Það er ekki nóg að sjá línuritið. Gögnin sem liggja á bak við þurfa að vera aðgengileg. Ef línuritið sýnir samtölur verður að veita aðgang að gögnunum sem eru lögð saman.

Framsetning verkefnalista er síðan annað mál. Verkefnalistar málefnasviðanna gætu einnig verið þó nokkuð tæknivæddari. Í hugbúnaðarþróun er oft notuð ákveðin aðferð sem heitir Agile við verkefnaflokkun. Markmið verkefnaflokkunarinnar er að forgangsraða reglulega fyrir stuttan tíma í einu. Að sjálfsögðu er það pínulítið erfitt fyrir fimm ára áætlun, en hvað stóru myndina varðar þá er samt allur verkefnalistinn aðgengilegur þótt hann breytist eilítið í hverri ítrun áætlunarinnar. Það gefur hönnuðum svigrúm til þess að bregðast við breyttum aðstæðum án þess að fórna of miklu í verkefnishluta sem skipta ekki máli. Það getur komið upp úr dúrnum þegar búið er að leysa eitt verkefni að annað verkefni er óþarft, þá þarf ekki að vinna það, við getum bara látið það detta út eða við getum forgangsraðað því neðar af því að við erum búin að komast að einhverju öðru, höfum fengið nýjar upplýsingar.

Ógagnsæið í verkefnalista fjármálaáætlunarinnar felur ekki bara í sér hversu óljósir mælikvarðarnir á verkefnin eru eða skortinn á þeirri nákvæmu kostnaðargreiningu sem er nauðsynleg. Ógagnsæið felst líka í að þau verkefni sem birtast ekki eru ekki þekkt utan ráðuneytis eða stofnunar. Það er nauðsynlegt að þingið fái aðgang að þessum verkefnalista ráðuneytanna til þess að geta tekið ákvarðanir um fjárveitingar til þeirra verkefna. Þannig getur þingið tekið afstöðu til álitaefna á borð við það hver forgangsröðunin er og hvaða afleiðingar breytingar á fjárveitingum til málefnasviðsins hafa. Hvaða verkefni detta út ef við ákveðum að lækka fjárveitingu til málefnasviðs og hvaða verkefni bætast við ef við ákveðum að auka við? Hvaða áhrif hefur það á tímalínuna hvaða verkefnum seinkar eða hvaða verkefni verða fyrr kláruð? Þetta er algjört lykilatriði til þess að sé hægt að taka ákvarðanir um fjárheimildir.

Fjórði minni hluti leggur til að lögum um opinber fjármál verði breytt á þann veg að tölvutækt snið þingskjala nái til fjármálaáætlunar og þeirra gagna sem þar eru birt, að verkefnalisti málefnasviðanna verði opnaður og birtur eftir forgangsröðun þar sem mælikvarðar eru skýrir og lagt er meira í kostnaðar- og ábatagreiningu þeirra verkefna sem eiga að fara ofarlega á lista. Það þarf að vera skilyrði fyrir því að verkefni geti verið tekið til framkvæmda að búið sé að kostnaðarmeta það. Það þarf að vera skilyrði fyrir því að Alþingi geti samþykkt að eitthvert verkefni eigi að fara til framkvæmda að búið sé að kostnaðarmeta það, það sé birt á þann hátt í fjármálaáætlun og síðan fjárlögum. Það væri hægt að búa til forrit t.d. sem sýnir verkefnadreifingu til næstu ára miðað við gefna forgangsröðun, kostnað og fjármögnun. Þá getum við betur séð þegar við breytum forsendum hvaða áhrif það hefur á verkefnið. Ef við ákveðum að færa verkefni framar í tíma og stytta tímann, þá sjáum við nákvæmlega miðað við kostnaðargreiningu hvaða áhrif það hefur á heildartölur málefnasviðsins.

Það er einmitt eitt annað sem hefur vantað upp á, það er samanburðurinn, samanburður á þróun gjalda. Í fjármálaáætlun er samanburður við fyrri ár mjög erfiður af því að við erum nýkomin í nýtt skipulag. Skipting gjalda á þessi málefnasvið er ný. Það er einungis búið að endurflokka eldri fjárlög aftur til ársins 2010, en það er nauðsynlegt að fá endurflokkun a.m.k. til ársins 2000 vegna þess að við þurfum að bera saman svipuð tímabil og er núna, efnahagslega séð. Það er erfitt að bera saman gögn úr hruninu við gögn síðustu ára. Aðstæður eru bara ekki sambærilegar sem gerir að verkum að ef við tökum upplýsingar byggðar á því hvernig aðstæður eru núna miðað við hvernig þær voru 2010, þá fáum við bara allt aðra niðurstöðu. Það er ekki sömu hagsveifluaðstæður. Ég er búinn að biðja um þessi gögn, ég sendi beiðni til fjármála- og efnahagsráðherra, en það er harla ólíklegt að þau fáist fyrir lok þessa þings, enda er þó nokkur handavinna að fara í gegnum öll gögnin aftur til ársins 2000. Þetta kemur smám saman. Því fyrr því betra.

Þó er eitt málefnasvið sem er tiltölulega auðvelt að bera saman við fyrri fjárlög. Í fyrri fjárlögum birtist nefnilega alltaf tafla með skiptingu útgjalda eftir málaflokkum samkvæmt COFOG-staðli Sameinuðu þjóðanna. Þar er málaflokkur sem heitir heilbrigðismál. Í núverandi málefnasviðaflokkun eru þau málefnasvið mjög vel skilgreind sem falla undir heilbrigðismál. Það eru málefnasvið eins og sjúkrahúsþjónusta, heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa, hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta, og lyf og lækningavörur. Upphæðir málaflokksins heilbrigðismál og síðan málefnasviðanna eru samanlagt mjög svipaðar. Það munar 4–20 milljörðum, málefnasviðunum í hag, þannig að þau eru dýrari og hafa greinilega aðeins meira umfang en COFOG-málaflokkurinn gerir. Það er samt mjög áhugavert að bera saman þessar tvær stærðir.

Samkvæmt málefnasviðunum verður hækkunin milli 2017 og 2022 17,9% og það er með byggingu nýs spítala. Hækkunin er 8,8% án spítalans. Samkvæmt COFOG er 25,9% hækkun í þeim málefnaflokki, heilbrigðismál, árin 2000–2005. Árin 2001–2006 er 26% hækkun. 2002–2007 er hækkunin 20,3%. Árin 2003–2008 er 18,6% hækkun. Meðaltalsaukning á öllum þessum fjórum tímabilum er 22,7% hækkun sem er umtalsvert meiri hækkun en er til málefnasviðanna á tímabili fjármálaáætlunarinnar.

Miðað við þetta má sjá að aukning til heilbrigðismála er minni á tímabili fjármálaáætlunar en á öllum jafnlöngum tímabilum fyrir hrun þrátt fyrir að þá hafi ekki verið að byggja nýjan Landspítala. Það má þó vera að það sé einhver minni háttar skekkja af því það er ekki verið að bera saman nákvæmlega sömu verkefnin þó að litlu muni. Að skoða hækkun til COFOG-málaflokksins ætti þó að gefa jafn góðar vísbendingar um aukið framlag til heilbrigðismála og ef við skoðuðum hækkun til málefnasviðanna sem voru fyrr upp talin. Að bera síðan saman þær hækkanir ætti að gefa nokkuð góða samanburðarmynd. Hún er ekki núverandi fjármálaáætlun í hag ef tekið er tillit til stóru orðanna hjá ríkisstjórninni um met í framlögum til heilbrigðismála. Vissulega er það satt krónutölulega séð, en það hefur í rauninni alltaf verið satt nema í hruninu. Framlög til heilbrigðismála drógust saman í krónum talið 2009–2012, en síðan þá hafa framlögin alltaf verið upp á við. Það var ekki fyrr en 2016 sem framlögin voru aftur orðin þau mestu í krónutölum frá því 2008 áður.

Stjórnmálamenn eiga það til að berja sér á brjóst og segjast vera að gera hitt og þetta betur en áður. Þegar slík orðræða er viðhöfð er nauðsynlegt að skoða raunveruleg gögn sem liggja að baki fullyrðingunum. Oft er líklegra en ekki að verið sé að hagræða sannleikanum með því að tala um krónutöluhækkanir þegar réttara væri að bera saman aukningu. Að lokum þarf svo auðvitað alltaf að skoða hvort verkefni kláruðust gæfusamlega og hvort markmiðum hafi verið náð þannig að það er fátt auðvelt í þeim efnum. Alltaf þegar menn tala um að verið sé að gera eitthvað æðislegt hingað og þangað þá þarfnast það nánari skoðunar.

Í umfjöllun minni núna um fjármálaáætlunina þá hef ég minnst á launaþróun þar sem er gert ráð fyrir 9, 10% hækkun launa á tímabilinu. Ég gat ekki séð að reiknað væri með því í tölunum þar sem t.d. var gert ráð fyrir 7,7% hækkun í framlögum til háskólans. Ég gerði þá ráð fyrir að þar væri í rauninni halli á ferðinni, en eftir nánari eftirgrennslan þá kemst ég að því að það er búið að gera ráð fyrir launahækkununum utan útgjaldarammans. Þetta fannst mér mjög áhugavert því í útgjaldarammanum eru núverandi laun, launakostnaður. Utan útgjaldarammans er síðan bætt við hækkuninni sem er ætlað að verði á tímabilinu. Mér finnst það mjög undarlegt. Þetta beinir athygli minni að þeim skorti á gagnsæi sem ég tel vera í fjármálaáætlun og fjármálaráð telur sömuleiðis vera. Maður getur ekki auðveldlega séð hvaða þættir það eru sem eru innifaldir í upphæðinni í hverju málefnasviði. Maður getur ekki litið bara á málefnasvið og séð að þarna fara 30% í laun og 50% í rekstur og eitthvað í einskiptisverkefni o.s.frv. Maður verður a.m.k. að geta séð núverandi stöðu og hvort það verða einhverjar verulegar breytingar á þeim hlutföllum á næstu árum. Það er algjört lykilatriði í stefnumótun. Ætlum við að breyta einhverju umfram þær aðstæður sem eru núna? Því er nefnilega ekki svarað í þessari fjármálaáætlun.

Þess vegna spyrja embætti eins og sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu og lögreglustjóraembættin á Íslandi um sín framlög. Þeim sýnist verða niðurskurður hjá þeim vegna þess að það er lögð áhersla á að kaupa þyrlur eða þau sjá fram á gífurlega aukningu í framlögum vegna flóttamanna Þau sjá að það hefur áhrif á framlög til embættanna. Það er ekki útskýrt að það verði óbreytt ástand í þessum stofnunum, það er ekki trygging fyrir því að ekki verði skorið niður og ekki heldur bætt við, hvorki verkefnum sem eru þá ófjármögnuð né fjármagni sem er umfram verkefni. Það vantar slíkar upplýsingar, svoleiðis tryggingu í rauninni. Það er stefnumótun að segja að við ætlum ekki að breyta neinu. Það er ein tegund af stefnumörkun. Svo þegar kemur að því að breyta einhverju þá tekur maður skýrt og skilmerkilega fram að hér kemur verkefni inn á þetta málefnasvið sem hefur ákveðið umfang. Þó að ekki sé endilega tiltekið nákvæmlega á hvaða stofnanir það fjármagn dettur þá er alla vega hægt að fylgjast með því og það er sérstaklega sundurliðað.

Í verkefnalistum fjármálaáætlunarinnar er einmitt mjög mikið af upplýsingum þar sem segir að eitthvað passi innan ramma, sé ekki kostnaðarmetið á þessum tímapunkti eða ekki sé komið samræmt verklag. Allt þetta gerir það að verkum að fjármálaáætlunin segir okkur ekki það sem hún á að gera. Það þýðir að þegar fjárlagafrumvarp kemur í kjölfarið þurfum við að skoða hvað er að gerast þar, giska á hvað gerist í framhaldinu næstu fjögur árin eftir það. Við höfum ekki hugmynd um það heldur. Við þurfum taka umræðuna í rauninni alveg upp á nýtt. Það var ekki tilgangurinn með lögum um opinber fjármál. Tilgangurinn var að taka umræðuna um hvar væri verið að skera niður og hvar væri verið að bæta í fyrr til þess að það þyrfti ekki að gera það aftur í kringum jól og áramót eins og hefur verið (Forseti hringir.) gert undanfarin ár. Mér sýnist allt stefna í það vegna þess að upplýsingarnar vantar í fjármálaáætlun.