146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:38]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hluti af því er það sem ég kom inn á varðandi tæknilega framsetningu fjármálaáætlunar. Í stefnumótun segjum við hvað við ætlum að gera fram í tímann þannig að þegar við tökum ákvörðun um það seinna sé það ekki geðþóttaákvörðun. Það vantar nær algjörlega í þessa fjármálaáætlun. Ég hef lagt það upp í t.d. umræðum um fjármálastefnuna og aftur núna í umræðu um fjármálaáætlunina að þegar fjármálastefnan er lögð fram verða að koma fram hugmyndir um það hvernig plús eða mínus í hverju málefnasviði er hnikað til. Líka ef það breytist ekkert.

Síðan verður að tala um það á sama hátt í fjármálaáætluninni hvort eitthvað sé að breytast, upp eða niður, hvort samsetningin á fjárheimildum til — ekkert endilega einstakra stofnana, einn málaflokkur getur verið nóg ásamt þeirri tryggingu eða að það sé sett fram að öllu öðru óbreyttu muni fjárframlag til einstakra stofnana ekki breytast. Ef það mun breytast og fólk hefur hug á því að það gerist þarf fyrst að leggja það fram í fjármálaáætlun og útskýra að leggja eigi auknar áherslur á fjárframlög t.d. til Hafró til þess að sinna rannsóknum um sýrustig sjávar. Það kemur fram í fjármálaáætlun áður en það kemur fram í fjárlögum. Ef það er ekki tekið fram býst maður við engum breytingum, en maður veit það ekki því að það er svo rosalega mikið af „mun rúmast innan ramma“ og tölurnar passa bara ekki þar inn í miðað við kostnað verkefnanna og stærð rammans. Þá verður maður að segja: Sýnið mér sundurliðunina.