146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:40]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Rúmast innan ramma, ætli það sé ekki sú setning sem maður hefur heyrt hvað oftast í þessari rammagerð allri? Rammagerðin, það er kannski það sem maður ætti að kalla hæstv. ríkisstjórn. En einmitt hvað þetta varðar af því að nú ræðum við hér fjármálastefnu með útgjaldaþaki. Við erum með fjármálaáætlunina og svo erum við með fjárlögin. Ég átta mig á því að við erum að gera þetta í nánast fyrsta skipti og erum einhvern veginn að læra á það. Mér hefur þótt það bagalegt hversu misvísandi upplýsingar og gögn hafa komið frá ráðuneytum. Í hv. umhverfis- og samgöngunefnd fengum við útlistun frá samgönguráðuneyti svona nokkurn veginn um skiptingu reksturs og framkvæmda, mögulegar sviðsmyndir fjárlaga, ef ég man rétt, 2018 og svo 2021 eða 2022, ég man það ekki, allt annað var frá hæstv. umhverfisráðuneyti. (Forseti hringir.) Maður hefur heyrt þessar upplýsingar úr nefndum. Það er mjög mismunandi hvaða gögn koma frá ráðuneytum. Er það ekki bagalegt í þessari vinnu?