146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:41]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Einhvern veginn urðu tölurnar í hverju málaflokkssviði til. Við erum einfaldlega að biðja fólk um að útskýra hvernig þær summuðust upp. Svo ég grípi aðeins niður í umsögn okkar í atvinnuveganefnd, en þetta á um við fleiri nefndir, líka allsherjar- og menntamálanefnd þar sem ég kom aðeins inn, segir þar, með leyfi forseta:

„Yfirferð nefndarinnar, sem og annara nefnda, var eins konar hraðsuða þar sem umsagnaraðilum var hrúgað í gegnum nefndina eins og verið væri að merkja í kassa sem á stæði „gestir komu“ og þar með væri því lýðræðislega hlutverki umsagnaraðila lokið.“

Þetta var alveg eins í fjárlaganefnd. Fjármálaráð kom fyrir nefndina, fyrir í efnahags- og viðskiptanefnd og fjárlaganefnd í einu. Það gafst í rauninni ekki nægur tími til þess að grafa betur og nákvæmlega ofan í greiningu fjármálaráðs. Við fengum í raun bara að spyrja nokkurra yfirborðsspurninga og fá staðfestingu á að það væri eins og virtist vera, að gagnsæið væri bara í algjöru drasli og að (Forseti hringir.) mörgu væri ábótavant.