146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:49]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er algjört lykilatriði, algjört lykilatriði. Fólk sem kosið er á þing er ekki sérfræðingar í öllu, langt í frá. Við erum hérna samkvæmt eigin sannfæringu. Það er okkar sannfæring sem gildir þegar við ýtum á takkann já eða nei. Til þess að við getum ýtt á já- eða nei-takkann þurfum við að hafa bestu upplýsingar sem völ er á fyrir framan okkur. Ef sérfræðingar sem koma fyrir nefndirnar eru ekki með þær upplýsingar, eða ef þeir væru með betri upplýsingar þá gæfu þeir okkur betri umsagnir sem myndi hjálpa okkur enn frekar að vera viss um að við værum að gera réttu hlutina þegar við greiðum atkvæði með eða á móti einhverjum breytingum á lögum. Þetta er algjört lykilatriði, finnst mér, í starfi þingsins. Ég upplifi það ekki að það séu þær aðstæður sem stefnt er að. Við erum ekki upp sett til þess að sinna þessu. Okkur er ekki gefinn tími til þess og fagaðilum er heldur ekki gefinn tími til þess að skila okkur, sem erum ekki sérfræðingar, bestu (Forseti hringir.) mögulegu upplýsingum.