146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:50]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Mig langar að koma inn á fátækt í landinu og hvort hv. þingmaður sjái að tekið sé á því máli sem menn tala um á tyllidögum og svo virðist sú umræða fjara út og það rennur einhvern veginn út í sandinn að gera eitthvað til þess að draga úr fátækt í landinu sem vissulega er til staðar.

Nú virðist í þessari fjármálaáætlun að stuðningur í gegnum barnabótakerfið eigi ekki að aukast. Stuðningur í gegnum kerfið hefur verið að minnka síðustu ár og fjölskyldum fækkað sem hafa fengið barnabætur. Þeim hefur fækkað um tæplega 12.000 á milli áranna 2013 og 2016 og skerðingarhlutfallið var aukið árið 2015. Niðurstaðan er sú að verið sé að lækka útgjöld til barnabóta að raungildi og áfram verði dregið úr þeim stuðningi við ungt barnafólk. Þetta sé að breytast í stuðning við þá allra, allra fátækustu. Það eru auðvitað miklu fleiri sem hafa þörf fyrir barnabætur á þessum erfiðum tímum þegar fólk er að gera svo margt í einu, koma börnum á legg með tilheyrandi kostnaði, koma sér upp húsnæði eða leigja húsnæði og öllu því sem fylgir að reka heimili og fjölskyldu.

Hvað segir hv. þingmaður um það hvernig ríkisstjórnin meðhöndlar ungt barnafólk í fjármálaáætlun sem liggur fyrir til næstu fimm ára? Er verið að bæta þeirra hag?