146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:28]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég verð að segja að ég er hrifin af því að gistináttagjaldið, skatturinn eða hvað við viljum kalla það, renni til sveitarfélaganna, hvort sem útfærslan yrði sú að það væri alfarið þannig eða að einhverjar fjárhæðir, fyrstu X milljónir eða hvað það nú væri, færu í kassann til sveitarfélaganna. Við Vinstri græn höfum haft uppi hugmyndir um þrepaskipt gistináttagjald. Mig langar að spyrja þingmanninn hvaða afstöðu hún hefur til þess.

Ég tek undir þetta með að sveitarfélögin hafi betri yfirsýn og meira eftirlit með þessu. Kannski væri jafnræðisins einmitt best gætt með þeim hætti. Það þyrftu þá kannski að fylgja einhverjar kvaðir um innviðauppbyggingu eða eitthvað slíkt ef það færi alfarið til þeirra.

Ég tek líka undir hvað varðar fólk sem kemur til sumarstarfa og enginn skattur skilar sér af þeim störfum, þ.e. við þurfum að finna út úr því hvaða leið hægt er að fara til að (Forseti hringir.) þau sveitarfélög sem veita alla þjónustu til handa þeim starfsmönnum og þurfa jafnvel að byggja upp geti fengið eitthvað á móti þeim útgjöldum.