146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:30]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessi viðbrögð. Mér finnst í raun blasa við að það þurfi að þrepaskipta gistináttaskattinum. Ég hef m.a. aðstoðað unglinga við að innheimta á tjaldstæði þar sem er verið að borga jafnvel niður í 1 þús. kr. fyrir nóttina og það er ekki það sama og þar sem verið er að borga 50 þús. kr. fyrir nóttina. Manni þætti harla óeðlilegt að það væri í sama þrepi.

En varðandi lögreglustjórana og sýslumennina: Eftir því sem ég best veit er það mjög þröngt, sérstaklega hjá sýslumannsembættinu á Austurlandi. Ég hef ekki alveg nýjustu upplýsingar, kannski bara álíka gamlar og hv. þingmaður hefur. En það hefur vissulega valdið mér nokkrum vonbrigðum að ekki hefur tekist að færa frekari verkefni til sýslumannsembættanna til að styrkja rekstrargrundvöllinn hjá þeim.