146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:33]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni fyrir andsvarið. Öryggi við dreifingu raforku er afskaplega mikilvægt. Eins og ég kom inn á í störfum þingsins í morgun er það í rauninni bara höfuðborgarsvæðið sem býr við viðunandi öryggi. Það hefur verið þannig í rúmlega 25 ár að hægt er að segja að óvæntir atburðir hjá orkufrekum viðskiptavinum hafa ekki áhrif inn á kerfið hér.

Ég held að við þurfum að bæta ýmislegt. Eitt af því væri að taka til skoðunar hvort dreifikerfið gæti allt saman tilheyrt einum aðila, hvort sem hann héti Landsnet eða eitthvað annað, þannig að við værum ekki að deila raforkunni upp í heildsöludreifingu og síðan til minni aðila. Það held ég að myndi skapa ákveðna skilvirkni. Það hefur síðan verið meira öryggi í dreifingu raforku. Sterkari byggðalína þýddi náttúrlega betri nýtingu á þeirri raforku sem þegar er til í landinu. Það er náttúrlega eitt atriðið. Þetta snýst ekki endilega um nýjar virkjanir. En rammaáætlunin sem hv. þingmaður kom inn á er auðvitað mat á nýjum virkjunarkostum og forgangsröðun þeirra. En það eru ákveðnir hnökrar á umhverfismatsferlinu og þeim leyfum fyrir framkvæmdum við línulagnir sem þarf að fara yfir. Það má þó alls ekki vera á kostnað umhverfisins heldur þarf bara að skýra vinnuferlið þannig að hægt sé að koma af stað markvissari vinnu á þessu sviði. Og auðvitað þarf svo fjármagn til að byggja kerfið upp en það er svo önnur saga.