146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:38]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég fór í fyrri ræðu minni yfir efnahagslegar forsendur þessarar fjármálaáætlunar og þá óvissu sem um þær ríkir, veikingu þeirra tekjustofna sem nýttir eru til þess að standa undir samneyslunni og hvaða sýn við í Vinstri grænum hefðum í því og fór sérstaklega yfir umsögn fjármálaráðs sem er nokkuð sem ég tel að allir hv. þingmenn ættu að hafa áhyggjur af í ljósi þess að einhverju leyti finnst manni niðurstaðan vera sú að við höfum lagt af stað út í ána en ekki verið fullbúin til þeirrar ferðar. Við séum í raun stödd úti í miðri á og nánast óvíst hvert eigi að stefna áfram með þessa áætlun. Auðvitað hefur mjög margt áhugavert komið fram í þessari umræðu, kannski ekki síst það að um hana er talsverður ágreiningur, getum við sagt, í hópi hv. þingmanna í meiri hlutanum. Nægir þar að vitna til nefndarálits meiri hluta fjárlaganefndar.

Mig langar hins vegar að nýta tækifærið sérstaklega hér til að ræða um nokkra útgjaldaliði sem hafa valdið mér vonbrigðum í þessari tillögu. Í fyrsta lagi eru það útgjöld til framhaldsskóla. Ég innti hæstv. mennta- og menningarmála eftir þessum útgjöldum og skýringum á því af hverju breytingin á framlögum til framhaldsskóla væri jafn mikil og raun ber vitni frá þeirri fjármálaáætlun sem var samþykkt í ágúst sl. og átti að ná yfir árin 2017–2021 og þessari fjármálaáætlun sem við erum með hér undir núna og á að ná frá árinu 2018–2022. Þar er umtalsverður munur eins og hefur komið fram í máli mínu. Tökum sem dæmi árið 2021. Þá var gert ráð fyrir í síðustu samþykktu fjármálaáætlun að til þessara mála rynnu 31,288 milljarðar en í þessari er gert ráð fyrir 1,447 milljörðum kr. lægri fjárhæð, eða 29,841 milljarði kr. Hæstv. ráðherra svaraði því til að ríkisútgjöld hefðu aukist svo mikið í síðustu fjárlögum sem hann tók nú þátt í að samþykkja ásamt öðrum þingmönnum. Það hefði algerlega sett þessar áætlanir úr skorðum. Ég tel ekki að þetta standist skoðun. Ég tel ekki heldur að þessi áætlun eins og hún er sett fram lýsi sóknarhug í málefnum menntunar, hvorki á sviði framhaldsskóla né háskóla.

Það liggur fyrir að þáverandi hæstv. menntamálaráðherra, Illugi Gunnarsson, tók það skýrt fram hér í þinginu, þegar hann var gagnrýndur fyrir að ákveða að stytta framhaldsskólanám eða nám til stúdentsprófs niður í þrjú ár, og rökstuddi þá breytingu og þá ákvörðun m.a. með því að þeir fjármunir sem myndu sparast við þessa ákvörðun myndu nýtast til að efla framhaldsskólastigið þannig að fjárframlög á hvern nemanda yrðu sambærileg við það sem gerist í Danmörku og Svíþjóð. Við höfum verið talsvert langt frá Norðurlöndunum í framlögum til framhaldsskólastigsins.

Ég veit að skólafólk um allt land hlustaði eftir þessum orðum hæstv. þáverandi ráðherra og taldi þau jafnvel geta verið rök með þeirri ákvörðun hans að stytta skólann. Eins og ég segi var ég algerlega ósammála þeirri ákvörðun en virti þó þessi rök sem hann setti fram. Og þau birtust með afgerandi hætti í síðustu fjármálaáætlun. Hér erum við komin með fjármálaáætlun þar sem þessi hugsun er farin út í veður og vind. Við erum þá aftur fjarri því að ná fjármagni á hvern nemanda eins og gerist á Norðurlöndunum. Við ætlum ekki að sýna metnað í málefnum framhaldsskólanna á tímum þar sem mín skoðun og vonandi fleiri hér inni er sú að menntun sé algert lykilatriði. Við munum til að mynda sjá róttækar breytingar á vinnumarkaði og samfélagi vegna tæknibreytinga í kringum okkur og sérfræðingar segja okkur að þær breytingar geti orðið talsvert hraðari en við höfum áður séð. Það eru gríðarlegar áskoranir fram undan, bæði með breyttum atvinnuháttum en líka ýmsu sem kallar á breytingar í samfélaginu. Ég get nefnt umhverfisbreytingar og margt fleira í þeim efnum. Viðbrögð meiri hlutans á Alþingi eru að skerða framlög til framhaldsskóla.

Ekki tekur betra við þegar við förum upp í háskólana. Auðvitað vakti það athygli þegar hæstv. ráðherra tiltók sérstaklega við kynningu á áætluninni að auknum fjármunum yrði varið til háskólastigsins til að auka gæði og standast alþjóðlegan samanburð. Síðan kemur á daginn að aukningin til háskólanna er fyrst og fremst bygging Húss íslenskra fræða, húss sem við erum nú margoft búin að ræða hér í þingsal. Við höfum margoft fengið yfirlýsingar frá fulltrúum allra flokka um að það þurfi að ljúka þessu húsi. Það var hætt í miðju kafi eftir að var byrjað að byggja það þannig að líklega verður kostnaðurinn við það talsvert meiri núna en ef það hefði bara verið lokið við byggingu þess á sínum tíma, 2013. Gott og vel. Gott að það á að byggja þetta hús. En merkilegt hins vegar að aukningin til háskólastigsins felist öll í framlögum til þessa húss þar sem framlag Happdrættis Háskóla Íslands er meira að segja reiknað inn sem sérstakt framlag ríkisins en það eru auðvitað miðaeigendur eins og sú sem hér stendur og vonandi aðrir þingmenn sem greiða það framlag en ekki hinn sameiginlegi ríkissjóður. Þegar við skoðum aukninguna og tökum Hús íslenskra fræða út fyrir rammann verður aukningin til reksturs háskólastigsins engin árið 2018 og 2,1% árið 2019.

Þá finnst mér við hæfi að rifja upp samþykkta stefnu Vísinda- og tækniráðs. Hverjir sitja í Vísinda- og tækniráði? Eru það bara einhverjir vísindamenn úti í bæ? Það kynni einhver að halda. Nei, þar sitja flestir ráðherrar ríkisstjórnarinnar. Á sínum tíma var forsætisráðherra formaður Vísinda- og tækniráðs. Núverandi ríkisstjórn hefur reyndar ákveðið að breyta því og færa forsæti Vísinda- og tækniráðs yfir til menntamálaráðherra. Ég veit ekki hvort það sé hluti af skilaboðunum að þessi málaflokkur hafi verið settur til hliðar. En Vísinda- og tækniráð sem starfaði undir forystu hæstv. forsætisráðherra síðustu ríkisstjórnar var búið að samþykkja stefnu sem áður hafði verið áréttuð á Alþingi þegar við samþykktum að koma á laggirnar aldarafmælissjóði Háskóla Íslands 2011, sem við gerðum í miðri kreppu en studdum samt öll. Hluti af greinargerðinni með þeirri tillögu var að við ættum að stefna að því að framlög á hvern háskólanema ættu að fara upp í meðaltal OECD-ríkjanna 2016 og meðaltal Norðurlandanna 2020.

Og af hverju erum við að gera þetta? Við erum að gera þetta til þess að íslenskt samfélag sé í stakk búið til að takast á við þær áskoranir sem eru fram undan, til þess að háskólanemar fái kennslu sem sé með því besta sem gerist í heiminum og til þess að standa undir grunnrannsóknum sem er auðvitað undirstaðan undir framtíðina í þessu samfélagi.

Það er rétt að gert var ákveðið átak í að efla samkeppnissjóði. Raunar var það fyrst gert 2012, því var svo kippt til baka 2013 en svo ákvað ríkisstjórnin að fara aftur til baka 2014. Það vekur upp spurningar af hverju menn geta ekki bara sameinast um góð mál, af hverju það þarf alltaf að vera ný ríkisstjórn sem gerir það. Og það var gott. En við megum ekki gleyma því að grunnfjármögnun háskólanna er líka algert lykilatriði í þessu. Við stöndum því miður ekki undir henni með þessari áætlun.

Ég hef því miður einungis eina og hálfa mínútu eftir og ætlaði þó að tala um miklu fleira en ætla að nýta síðustu mínútuna mína í að ræða aðeins málefni öryrkja. Ég velti því fyrir mér hvort meiri hlutinn á Alþingi telji þessa fjármálaáætlun ásættanlega í ljósi þeirra útreikninga sem fyrir liggja frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands um að kaupmáttaraukning öryrkja hafi verið neikvæð allt til ársins 2015 og þá hafi aukningin orðið 1%. Miðað við umsögn Öryrkjabandalags Íslands um fjármálaáætlun munu framlög sem ætluð eru í þennan málaflokk duga til þess að koma mánaðartekjum öryrkja upp í 288 þús. kr. árið 2022. Við erum að stefna að því að lágmarkslaun á almennum markaði fari upp í 300 þús. kr. á næsta ári, 2018. Þetta er auðvitað með öllu óviðunandi, herra forseti, og getur ekki verið stefna þessarar ríkisstjórnar. Ég bara trúi því ekki að það sé stefna þessarar ríkisstjórnar að ætla að halda þeim, sem svo sannarlega hafa ekki valið sér það hlutskipti að vera á örorkubótum, í fátæktargildru. Þetta er ekkert nema ávísun á það. Og ég lýsi stórum áhyggjum ef ætlunin er að halda þessu plani þannig að launum þessara hópa eigi í raun að halda niðri með þessum hætti. Það getur bara ekki verið pólitískur vilji nokkurs manns hér inni. Ég neita að trúa því.

Herra forseti. Því miður kemst ég ekki til að ræða málefni náttúruminjasafns (Forseti hringir.) sem hvarf úr áætluninni þrátt fyrir samþykkt Alþingis einróma um að bygging þess ætti að birtast í fjármálaáætlun. (Forseti hringir.)Ég þarf kannski að setja mig aftur á mælendaskrá til að ræða þau málefni.